Það verður mikið um dýrðir í Schenkerhöllinni á þriðjudaginn, 29. mars. Þá bjóða DB Schenker og VHE frítt inn á leiki meistaraflokka Hauka í handbolta þegar þeir fá Val í heimsókn.
Það eru stelpurnar sem hefja leik kl. 18:15 en þær hafa mætt Val tvisvar sinnum í vetur. Valsstúlkur unnu fyrri deildarleik liðanna í vetur 27 – 24 en Haukastúlkur hefndu fyrir það með því að vinna leik liðanna í bikarnum 28 – 23. Fyrir leikinn þá eru Haukastúlkur í efsta sæti Olís deildarinnar eftir glæsilegan sigur á Gróttu á Skírdag og Valsstúlkur eru í 3. sæti deildarinnar 4 stigum á eftir, þá má því búast við hörku toppbaráttu slag milli þessara tveggja liða.
Síðan kl. 20:15 er komið að strákunum en Haukar og Valur hafa mæst 4 sinnum í vetur, Haukar hafa unnið báða deildarleiki liðanna 26 – 19 og 25 – 22 einnig unnu Haukar úrslitaleik liðanna í deildarbikarnum 28 – 26. Það voru síðan Valsmenn sem unnu seinasta leik liðnna 24 – 22 en þá mættust liðin í undanúrslitum bikarsins og urðu þeir svo bikarmeistara degi seinna. Leikurinn er seinasti leikur liðanna í deildarkeppninni en Haukar eru orðnir deildarmeistara og Valsmenn verða í 2. sæti deildarinnar. Þá má þó búast við hörkuleik og ekki má gleyma því að eftir leik fá Haukamenn afhentan deildarmeistaratitilinn.
Milli leikja verður boðið upp á pylsur, pizzur og annað góðgæti á sanngjörnu verði. Einnig er vert að minnast á það aftur að frítt er inn á báða leikina í boði DB Schenker og VHE og eiga Haukar þeim bestu þakkir fyrir. Það er því engin afsökun fyrir að láta sig vanta og á allt Haukafólk að mæta og styðja Haukastelpurnar í baráttunni um deildarmeistaratitilinn og svo sjá Haukastrákanna lyfta þeim titli seinna um kvöldið. Áfram Haukar!