Nýir leikmenn í liði Hauka – Fyrsti leikur í Grindavík á föstudag

Haukur Ásberg Hilmarsson og Elton Renato Livramento Barros.

Haukur Ásberg Hilmarsson og Elton Renato Livramento Barros.

Fyrsti leikur Hauka í 1. deild karla, Inkasso deildinni, verður föstudaginn 6. maí kl. 19:15 er okkar strákar mæta til Grindavíkur.  Þá geta stuðningsmenn fengið að sjá nýja leikmenn sem eru komnir til félagsins sem og stráka sem eru að koma upp í meistaraflokk úr 2. flokki.

Nýir leikmenn eru annars vegar framherjinn Elton Renato Livramento Barros eða FuFura eins og hann er jafnan kallaður en hann kemur til félagsins frá Selfyssingum og hins vegar Haukur Ásberg Hilmarsson sem kemur á láni frá Val.

FuFura er 24 ára gamall og er frá Grænhöfðaeyjum en hann hefur spilað með Selfyssingum undanfarin tvö tímabil.  FuFura er án efa afar góður liðsstyrkur fyrir okkur Hauka-fólk og það verður spennandi að fylgjast með honum í sumar.

Sama má segja um Hauk sem er tvítugur kantmaður en hann skoraði eitt mark í átta leikjum með Val í Pepsí deildinni í fyrra.

Alexander Helgason og Viktor Jónsson, tveir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu spor með meistaraflokki.

Alexander Helgason og Viktor Jónsson, tveir leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu spor með meistaraflokki.

Auk FuFura og Hauks eru fjórir leikmenn að bætast við meistaraflokkshópinn úr 2. flokki. Þeir eru Alexander Helgason, Daði Snær Ingason, Magnús Andrésson og Viktor Jónsson. Efnilegir strákar sem bætast við stóran hóp uppaldra leikmanna í Haukum.

Áfram Haukar og fjölmennum til Grindavíkur á föstudaginn!