Það er sannkallaður stórslagur á morgun, laugardag, hjá meistaraflokki kvenna í handbolta en þá halda þær á Seltjarnarnes í Hertz höllina og etja kappi við Gróttu í Olísdeidinni kl. 14:00.
Fyrir leikinn eru Haukastelpur með 4 stig úr 3 leikjum en þær hafa sigrað Stjörnuna og Fylki en þær töpuðu gegn Fram í síðasta leik. Á meðan hefur Gróttuliðið unnið Selfoss en tapað fyrir ÍBV og Stjörnunni.
Það má búast við hörkuleik á morgun en þessi lið háðu marga hildina á síðustu leiktíð þar sem Haukar unnu Gróttuliðið í hálfgerðum úrstilaleik um deildarmeistaratitilinn á meðan Gróttustúlkur slógu Haukastelpur úr undanúrslitum bikarsins. Það er því um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna í Hertz höllina kl. 14:00 á morgun, laugardag, og styðja Haukastúlkur til sigurs. Áfram Haukar!