Mikið breytt lið Hauka mun fara suður með sjó og etja kappi við heimamenn í Grindavík í fyrstu umferð Dominos deildar kvenna í kvöld kl. 19:15.
Haukaliðið hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku í sumar og er ljóst að Haukaliðið mun þurfa að stóla á mjög ungt lið í vetur. Liðið hefur þó bætt við sig útlending en Michelle Mitchell er genginn í raðir Haukanna en hún kemur beint úr „College“ frá USA.
Haukaliðið varð einnig fyrir áfalli á undirbúningstímabilinu er leikstjórnandi liðsins Þóra Jónsdóttir meiddist í æfingaleik og ristarbrotnaði. Búist er við því að hún geti byrjað aftur eftir um 3 vikur.
Haukaliðið hefur samt sem áður staðið sig nokkuð vel í þeim æfingaleikjum sem liðið hefur spilað á undirbúningstímabilinu og ljóst er að stelpurnar munu leggja allt í sölurnar á þessu tímabili. Þetta unga lið þarf stuðning og jákvæðni frá Haukafólki og áhorfendum og því hvetjum við Haukafólk að styðja vel við bakið á þeim á komandi tímabili.