Hafnarfjarðarslagur hjá strákunum í handboltanum

haukarfhEftir flottan leik í EHF-bikarnum um síðastu helgi er komið að næsta verkefni strákanna í meistaraflokki karla í handbolta en á morgun, miðvikudag, fá þeir verðugt verkefni þegar að nágrannar okkar í FH koma í heimsókn í DB-Schenkerhöllina kl. 19:30 og er því um Hafnarfjarðarslag að ræða í 7. umferð Olís deildar karla.

Fyrir leikinn eru Haukamenn í 9. sæti Olís deildarinnar með 4 stig úr 6 leikjum eftir sigra á Selfoss og Akureyri nú í síðastu umferð. FH-ingar eru tveimur sætum ofar í 7. sætinu með 5 stig en þeir hafa unnið Val og ÍBV og gert jafntefli við Stjörnunna en öll þeirra stig hafa komið á heimavelli á meðan öll stig Haukamanna hafa komið á útivelli þannig að bæði lið eru ólm í að breyta því þegar liðin mætast á morgun.

Það má því búast við sannkölluðum Hafnarfjarðarslag þar sem bæði lið eru í baráttunni um að koma sér ofar í töflunni. Það er því um að gera fyrir allt Haukafólk og aðra Hafnfirðinga að fjölmenna og sjá flottan handboltaleik í DB-Schenkerhöllinni kl. 19:30 á morgun, miðvikudag. Áfram Haukar!