Kári Jónsson og Helena Sverrisdóttir voru valin körfuknattleiksfólk Hauka fyrir árið 2016 og óskar heimasíðan þeim innilega til hamingju með titilinn. þau eru jafnframt tilnefnd af Haukum sem íþróttafólk Hauka og Hafnarfjarðar. Ívar Ásgrímsson þjálfari mfl. liðs karla var einnig valinn þjálfari ársins hjá deildinni.
Kári Jónsson hefur átt frábært ár og var stórkostlegur hjá silfurliði Hauka á síðasta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur þá var hann einn aðal burðarrás liðsins og var til að mynda valinn efnilegasti ungi leikmaður Dominos deildar karla á síðasta tímabili, auk þess að vera valinn í úrvalslið Dominos deildarinnar og jafnframt besti leikmaður seinni tímabils deildarinnar. Kári fór vestur til USA í College og fór þar í góðan og virtan körfuboltaskóla, Drexel, þar sem hann hefur staðið sig einstaklega vel og er, þrátt fyrir að vera á fyrsta ári, strax búinn að vinna sér sæti í byrjunarliði skólans.
Kári stóð sig einnig einstaklega vel með U20 ára liðinu (var á yngra ári) og leiddi liðið áfram í úrslitaleik þar sem U20 ára liðið tryggði sig í A riðli á næsta ári. Þar vann til að mynda liðið sigur á heimaliðinu, Grikklandi, í æsispennandi leik og gerði Kári 29 stig í leiknum og var í kjölfarið valinn einn af efnilegustu leikmönnum evrópu í sínum árgangi.
Frábært ár hjá frábærum leikmanni og verður gaman að fylgjast með drengnum á næstu árum en hann er farinn að banka ansi hressilega á dyrnar hjá A landsliðinu.
Helenu Sverrisdóttur þarf vart að kynna. Helena hefur verið einn albesti leikmaður Íslands í mörg ár og af mörgum talin besti íslenski kvenna leikmaðurinn frá upphafi. Helena átti mjög gott ár á árinu sem er að líða. Hún leiddi útlendingalaust lið Hauka í úrslit Dominos deildar og til deildarmeistaratitils. Hún sýndi mátt sinn leik eftir leik og yfirburðir hennar komu skýrt fram í undanúrslitunum þar sem lið Hauka var komið með bakið upp við vegginn fræga og voru 2-0 undir en þá steig hún upp og sýndi stórkostlega leiki. Helena hélt áfram í úrslitunum og þrátt fyrir meiðsli þá spilaði hún einstaklega vel og var valinn besti leikmaður Dominos deild kvenna á síðasta tímabili.
Helena leiddi einnig A landsliðið í evrópukeppninni þar sem kvenna landsliðið náði sínum stærsta sigri frá upphafi, er það lagði gríðarlega sterkt lið Ungverja í Höllinni. Frammistaða Helenu í þeim var hreint út sagt stórkostleg þar sem hún sýndi að hún væri enn einn af betri leikmönnum evrópu. Helena á stóran þátt í því að A landslið Íslands er í dag kominn fór upp um tvo styrkleikalista og hefur styrkt sig sem gott lið í evrópu.
Ívar Ásgrímsson var valinn þjálfari ársins eftir að hafa leitt mfl. lið Hauka í úrslit Dominos deildar karla. Ívar hefur byggt upp sterkt lið af uppöldum leikmönnum og hefur jafnframt þjálfað unglingaflokk félagsins með góðum árangri en þeir urðu einmitt bikarmeistarar í fyrra eftir stórkostlegan úrslitaleik þar sem liðið var 30 stigum undir í hálfleik en komu til baka og sigruðu eftir framlengdan leik. Ívar var einnig þjálfari A landsliðs kvenna sem náði sínum besta árangri frá upphafi og er þar að byggja upp nýtt sterkt lið.
Við óskum öllum aðilum hjartanlega til hamingju með frábært körfuboltaár og árangur á árinu sem er að líða.