Tillaga Hauka um U17 kvenna samþykkt á ársþingi KSÍ

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka óskar Guðna Bergssyni innilega til hamingju með kjör til formanns KSÍ á 71. ársþingi sambandsins sem haldið var í Vestmannaeyjum í gær, laugardag. Tillaga Hauka um U17 kvenna var samþykkt á þinginu.

Þá óskum við þeim Borghildi Sigurðardóttur, Guðrún Ingu Sívertsen, Magnúsi Gylfasyni og Vigni Má Þormóðssyni til hamingju með kosningu í stjórn KSÍ. Magnús er okkur Hauka-fólki að góðu kunnur enda þjálfaði hann meistaraflokk karla og er tíður gestur á Ásvöllum.

Stjórn knattspyrnudeildar Hauka þakkar Geir Þorsteinssyni fyrir vel unnin störf í þágu íslenskrar knattspyrnu.

Jón Björn Skúlason, varaformaður knattspyrnudeildar Hauka, lagði fram tillögu fyrir hönd knattspyrnudeildar Hauka að ársþingið myndi samþykkja breytingar á grein 15.7 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót með þeim hætti að leikjum í meistaraflokki kvenna hjá liðum sem eiga leikmenn sem valdir eru í U17 ára landslið kvenna, hvort sem um er að ræða æfinga- eða keppnisleik hjá landsliðinu, verði frestað og þeir færðir til ef landsleikir U17 kvenna verða til þess að leikmenn félagsliða geti ekki spilað leiki með félagsliðum sínum. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir Hauka en t.d. misstu þrír leikmenn af leik Hauka og Stjörnunnar í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar á síðasta ári þar sem þær voru að spila með U17.

Í greinargerð með tillögunni segir: ,,Það er alþekkt að stúlkur byrja mun fyrr að spila með  meistaraflokkum en drengir. Í dag er því þannig farið að ef U19 ára landslið eða eldra landslið er að leika þá er leikjum liða gjaldgengra leikmanna frestað og þeir færðir til. Þetta á ekki við um U17 ára landsliðið. Það er hins vegar ekki hægt að bera saman drengi og stúlkur á þessum aldri. Um 64 stúlkur á 3. flokks aldri, sem gjaldgengar eru í U17 ára landsliðið, léku fleiri en einn leik í 1. deild kvenna á árinu 2016 og 15 stúlkur úr sama aldurshópi léku í Pepsi-deild kvenna. Félög sem reiða sig mest á uppalda leikmenn geta orðið fyrir miklum skakkaföllum þegar 20-30% leikmanna úr byrjunarliði eru kallaðir í landsliðshóp.

Jón Björn stóð sig að sjálfsögðu vel í pontu og var tillagan samþykkt sem er mikið gleðiefni fyrir öll kvennalið í landinu sem treysta á ungar og efnilegar stúlkur í sínum meistaraflokkum.

Aðrar tillögur sem voru samþykktar eða felldar má sjá hér.

Fulltrúar Hauka á þinginu auk Jóns Björns voru þeir Elías Atlason, í meistaraflokksráði karla og í stjórn knattspyrnudeildar, Halldór Jón Garðarsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna, stjórnarmaður í barna- og unglingaráði kvenna og í stjórn knattspyrnudeildar, og Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráðs karla og í stjórn knattspyrnudeildar.

GudniBergsson