Andri Fannar Helgason hefur skrifað undir samning þess efnis að hann annist markmannsþjálfun meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Haukum. Áður spilaði Andri með Þrótti Reykjavík, Álftanesi og KV á sínum ferli.
Fyrr í vetur skrifaði markvörðurinn Trausti Sigubjörnsson undir samning við félagið og segir Jón Erlendsson, formaður meistaraflokksráðs karla, að Andri Fannar sé afar góð viðbót í þjálfarateymi félagsins fyrir spennandi og krefjandi tímabil í Inkasso deildinni næsta sumar.
Að sögn Jóns er það félaginu mikils virði að þjálfun markmanna sé fagleg og góð. ,,Það er okkur sönn ánægja að fá Andra í okkar raðir og væntum við mikils af hans störfum. Koma hans mun án efa hjálpa okkur gríðarlega á þessu sviði.“