Drengjaflokkur varð Íslandsmeistari á sunnudag eftir ævintýralegan úrslitaleik á móti KR þar sem úrslit réðust á síðustu sek. leiksins.
Bikarmeistararnir í unglingaflokki kvenna urðu að sætta sig við tap á móti gríðarlega sterku liði Keflavíkur en Haukaliðið náði aldrei að sýna sitt rétta andlit í leiknum sem tapaðist stórt.
Drengjaflokkur kom inn í úrslitahelgina sem „underdogs“, því þeir lentu í fjórða sæti í riðlinum og höfðu aðeins verið að strögla í sínum leikjum eftir áramót. Strákarnir hafa vaxið með hverjum leiknum og sýndu í 8 liða úrslitum á móti Scania meisturum Þórs frá Akureyri að þeir væru tilbúnir í úrslitahelgina en þeir sigruðu Þór með 20 stigum og spiluðu gríðarlega vel. Eftir sterkan sigur á móti ÍR í undanúrslitum, þar sem liðið sýndi aftur frábæran leik var ljóst að strákarnir væru tilbúnir og hefðu sjálfstraustið í lagi.
Leikurinn á móti KR var magnaður á allan hátt. Hittnin hjá leikmönnum var stórkostleg og hraðinn og tæknin frábær. KR spiluðu stórkostlega í fyrri hálfleik og voru með yfir 50% þriggja stiga nýtingu og skoruðu 55 stig í fyrri hálfleik. Haukarnir voru ekki mikið síðri og náðu að hanga í KRingum og hleypa þeim aldrei langt undan og var staðan í hálfleik 55-49 fyrir KR.
Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri var, KR leiddi allan leikhlutann og náðu mest 12 stiga forystu í 3ja leikhlutanum. Haukarnir enduðu þann þriðja mjög vel og voru búnir að ná muninum aðeins niður en KR leiddi með 8 stigum fyrir síðasta leikhlutann. þá skelltu Haukar í 3-2 svæðisvörn og KR náði ekki að leysa þá vörn, en Haukar náðu 16-0 áhlaupi og náðu mest 8 stiga forystu. KR kom þá aftur til baka og náðu að jafna leikinn undir lokin en Haukar héldu haus og tryggðu sér stórkostlegan sigur. Haukar unnu lokaleikhlutan með 14 stigum, en KR skoraði einungis 13 stig í fjórða leikhluta en Haukar 27 stig.
Þess má að auki geta að lang flestir leikmenn liðsins eru á yngra ári, en einungis tveir leikmenn eru á eldra ári (fæddir 1999).
Hilmar Smári Henningsson var að leik loknum valinn besti leikmaður leiksins en hann endaði með 38 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar.
Hægt er að sjá statt yfir leikinn hér og umfjöllun og viðtöl hér.
Unglingaflokkur kvenna spilaði við Keflavík um íslandsmeistaratitilinn í unglingaflokki en varð að játa sig sigraða eftir erfiðan leik. Leikurinn varð aldrei spennandi þar lið Keflavíkur gaf aldrei færi á sér og voru mun sterkari aðilinn. Leiddu með um helmingsmun í hálfleik en Haukar skoruðu aðeins 15 stig í fyrri hálfleik og einungis 6 stig i fyrsta leikhluta. því miður lagaðist leikur Hauka ekki neitt í síðari hálfleik og Keflavík komst meira en 30 stigum yfir og sigrðu að lokum leikinn með 34 stigum, 71-37.
Sömu lið áttust við í bikarúrslitum en þá náðu Haukastúlkur að sigra, en í gær var bara eitt lið mætt til leiks. Lykilmenn hjá Haukum náðu aldrei takti og voru heillum horfnar allan leikinn, jafnt í vörn sem sókn.
Við óskum Keflavík til hamingju með verðskuldaðan titil.