Unglingaflokkur karla og 10. flokkur stúlkna munu spila á seinni úrslitahelgi KKÍ sem fram fer á Flúðum um helgina. Undanúrslit fara fram á föstudegi og laugardegi en úrslit fara fram á sunnudeginum.
Unglingaflokkur karla spilar í dag, föstudag, kl. 18:00 í undanúrslitum á móti Breiðablik og má búast við skemmtilegum leik en bæði lið eru skipuð sterkum leikmönnum sem spila stór hlutverk í mfl. félagsins. Liðin hafa mæst 3x í vetur og hafa Haukar unnið alla leikina, en Breiðablik hefur veitt sterku Haukaliði góða keppni og því má búast við hörku leik. Haukaliðið lenti í örður sæti í vetur og hefur aðeins tapað þrem leikjum í vetur og því er stefnan sett á titil og fylgja eftir fordæmi drengjaflokks.
Úrslitaleikurinn fer svo fram á sunnudeginum kl. 15:00
10. flokkur stúlkna ríður á vaðið með fyrsta leik laugardagsins og spilar í undanúrslitum á móti Grindavík. Þessi flokkur hefur verið í stöðugri framför í vetur og því má búast við hörku leik. Grindavík og Keflavík hafa einokað þennan aldursflokk og hafa verið lang sterkustu liðin síðustu ár en nú hefur lið Hauka bæst þarna inn og sýnst að þær geta velgt þeim undir uggum. Í síðasta leik á móti Grindavík réðust úrslitin í lok leiks þar sem Grindavík náði að knýja fram sigur á síðustu mínútunum. Stelpurnar eru búnar að sjá að þær geta unnið Grindavík og því þurfa þær að koma ákveðnar til leiks og hafa trú á verkefninu.
Hægt er að fylgjast með beinni tölfræðilýsingu á vef kki.is.