Meistaraflokkur karla fór í gær í fyrsta útileik tímabilsins þegar að þeir héldu í Garðabæinn og léku á móti Stjörnunni. Fyrir leikinn voru bæði lið með 4 stig úr 3 leikjum og liðunum var spáð á svipuðum stað í deildinni fyrir tímabilið. Því var búist við hökuleik milli tveggja góðra liða.
Haukmenn tóku frumkvæðið eftir jafna byrjun en Stjarnan var aldrei langt undan. Þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður var staðan 9 -7 Haukum í vil og þegar að hálfleikurinn var liðinn var munurinn 3 mörk Haukum í vil 14 – 11. Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik en Haukar voru með frumkvæðið og Stjarnan alltaf þetta 1-2 mörkum á eftir. Svo þegar að um 10 mínútur lifðu leiks gengu Haukar frá leiknum þegar þeir breyttu stöðunni úr 25 – 24 í 29 – 24 og leikurinn búinn en leiknum lauk með 30 – 26 sigri Hauka.
Það var sem fyrr vörn og markvarsla sem var lykillinn að sigri Hauka í leiknum og einnig gekk sóknarleikurinn smurt lengst af í leiknum. Það var eins og áður á tímabilinu Björgvin Páll sem var einn besti maður Hauka í leiknum en hann varði um 40% þeirra skota sem á hann komu í leiknum. Hákon Daði og Daniel Þór voru markahæstir Haukamanna í leiknum með 8 mörk en svo kom Halldór Ingi með 6 mörk en allir áttu þeir flottan leik eins og reyndar allt Haukaliðið.
Nú tekur við kærkomin pása en um komandi helgi kemur landsliðið saman en um er að ræða leikmenn sem spila hér á landi og í því liði eru tveir Haukamenn þeir Hákon Daði og Daníel Þór. Næsti leikur Haukamanna er því ekki fyrr en mánudaginn 9. október þegar að Fram kemur í heimsókn í Schenkerhöllina.