Haukar fara í heimsókn í Ásgarð í kvöld, sunnudaginn 3. des. og munu etja kappi við nágrannana úr Stjörnunni í 9 umferð Dominos deildar karla.
Haukaliðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð í deildinni og alla mjög sannfærandi og hefur liðið verið að spila betur og betur með hverjum leiknum.
Síðasti leikur var fyrir rúmum tveim vikum og þá jörðuðu Haukarnir lið Njarðvíkur á heimavelli og verður gaman að sjá hvernig liðið kemur úr landsleikjafríinu. Liðið er gríðarlega vel mannað og hafa 10 leikmenn verið að spila síðustu leiki og menn í landsliðsklassa að koma inn af bekknum.
Síðustu leikir hafa einmitt verið að vinnast á mikilli breidd, þar sem allir hafa verið að smella vel saman jafnt í vörn sem sókn.
Síðustu leikir hafa verið mikil skemmtun og því hvetjum við allt Haukafólk að mæta í Ásgarð og hvetja strákana til sigur, því hver leikur er gríðarlega mikilvægur. Nú situr Haukaliðið í 3 sæti ásamt þrem öðrum liðum með fimm sigra og þrjú töp og eiga möguleika á þvi að komast í annað sætið í deildinni með sigri.