Meistaraflokkur kvenna sigraði í kvöld lið Gróttu 4-0 í Faxaflóamótinu en leikið var á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi.
Staðan í hálfleik var markalaus en á 2. mínútu seinni hálfleiks kom Hildigunnur Ólafsdóttur okkar stúlkum yfir eftir góða sendingu frá Heiðu Rakel Guðmunsdóttur. Hildigunnur var svo aftur á ferðinni á 68. mínútu þegar hún skoraði með glæsilegu skoti utan teigs.
Helga Magnea Gestsdóttir, sem gekk nýlega til liðs við Hauka, bætti við þriðja markinu á 88. mínútu eftir góða sendingu frá Elínu Björgu Símonardóttur sem er á 15. aldursári og því á yngra ári í þriðja flokki.
Elín Björg átti svo magnaða stoðsendingu á Hildigunni á 90. mínútu sem bætti við sínu þriðja marki á yfirvegaðan og glæsilegan hátt og 4-0 sigur Hauka staðreynd.
Með sigrinum eru okkar stúlkur í efsta sæti B riðils Faxaflóamótsins með 9 stig eftir þrjá leiki en næsti leikur verður á laugardaginn, 3. mars, kl. 11:00 þegar ÍA mætir í heimsókn á Ásvelli. ÍA er í öðru sæti riðilsins með sex stig eftir tvo leiki þannig að búast má við hörku leik. Hvetjum við Hauka-fólk að fjölmenna á Ásvelli og hvetja okkar stelpur til sigurs.
Áfram Haukar!