Fréttatilkynning frá Handknattleiksdeild Hauka
Nú um miðjan mars var gengið frá ráðningu Arons Kristjánssonar og mun hann taka við nýju starfi hjá Handknattleiksdeild Hauka sem Framkvæmdastjóri íþrótta- og markaðsmála. Aron mun taka til starfa þegar hann lætur af störfum nú í sumar sem þjálfari Danmerkurmeistara Álaborgar. Aron mun í fyrstu sinna starfinu samhliða þjálfun á karlalandsliði Bahrain.
Fyrsta verk Arons ásamt Gunnari Magnússyni íþróttastjóra snýr að undirbúningi næsta tímabils sem felst í greiningu og uppstillingu á þjálfurum yngri flokka deildarinnar sem og leikmannamálum meistaraflokkanna. Stjórn handknattleiksdeildarinnar er ánægð með þessa viðbót við það góða starf sem unnið er nú þegar og væntir mikils af starfi Arons á bæði félagslega og faglega sviðinu, sem og við sölu- og markaðssetningu handboltans í Haukum.