Stúlkna- og drengjaflokkur spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á sunnudag.

Fyrri úrslitahelgi yngri flokka KKÍ er haldin núna um helgina í DHL höll KR og þar eiga Haukar tvö lið, stúlknaflokk og drengjaflokk. Stúlknaflokkur spilaði sinn undanúrslitaleik á föstudagskvöldið en drengjaflokkur spilaði sinn undanúrslitaleik á laugardagskvöldinu.

Stúlknaflokkur spilaði í undanúrslitum á móti Njarðvík og vann nokkuð auðveldan 16 sigur og voru mest rúmlega 20 stigum yfir í 3 leikhluta, en leikurinn endaði 75-59. Stelpurnar spiluðu mjög vel og höfðu örugga forystu allan leikinn og gátu þjálfarar liðsins dreift álaginu mikið á allar stelpurnar og stóðu þær sig allar mjög vel.

Drengjaflokkur spilaði við KR og eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tóku Haukarnir seinni hálfleik föstum tökum og leiddu með 4-15 stigum allan leikinn. Ungt lið KR spilaði vel og lét Haukana hafa fyrir hlutunum en strákarnir héldu haus og unnu sanngjarnan sigur.

Úrslitaleikirnir fara fram á morgun, sunnudaginn 6. maí.

Stúlknaflokkur mun spila við lið Keflvíkinga og hefst sá leikur kl. 12:40 og strax á eftir munu strákarnir í drengjaflokki leika á móti liði Stjörnunnar og hefst sá leikur kl. 14:45. Báðir leikirnir fara fram í DHL höllinni og hvetjum við allt Haukafólk til að koma og fylgjast með framtíðinni spila á parketinu.