Hafþór Þrastar og Sindri Þór til liðs við Hauka – Óskar semur

Hafþór Þrastar og Hilmar Trausti, aðstoðarþjálfari, við undirskriftina

Meistaraflokkur karla er að styrkja sig fyrir komandi átök næsta sumar. Hafþór Þrastarson er genginn til liðs við Hauka á ný, en hann þekkir til á Ásvöllum þar sem hann lék hjá félaginu við góðan orðstýr í tvö ár tímabilin 2013 og 2014, hann á 42 leiki fyrir Hauka í deild og einn í bikar en hann kemur til félagsins frá Selfossi.

Við náðum tali af Hafþóri við undirskriftina og var hann spurður út í hvernig það kom til að hann ákvað að koma aftur til okkar á Ásvöllum.

,,Við Kristján Ómar höfum þekkst lengi og ég veit fyrir hvað hann stendur, við áttum gott spjall og hann seldi mér þetta um leið.“

,,Hér er mikið af af góðum leikmönnum sem ættu að geta gert mjög góða hluti næsta sumar.“ bætti Hafþór við spurður út í væntingar fyrir komandi tímabil.

Markvörðurinn ungi Sindri Þór Sigþórsson gekk einnig til liðs við Hauka en er fjölnismaður að upplagi en kemur til okkar frá Fylki. Hann er fæddur árið 1999 og er honum ætlað að vera í samkeppni við Óskar Sigþórsson um markmannsstöðuna næsta sumar. Óskar skrifaði einnig undir sinn fyrsta samning við félagið en hann varði mark okkar í 12 leikjum á síðasta tímabili og þótti standa sig virkilega vel.

Þegar Sindri Þór var spurður út í hvernig það kom til að hann ákvað að ganga til liðs við Hauka hafði hann þetta að segja,
,,Kristján Ómar var afreksþjálfarinn minn í Borgarholtsskóla, hann hafði óvænt samband við mig eftir að hann sá mig spila á móti Haukum og vildi fá mig til liðsins.“

,,Maður er tiltölulega nýkominn og því er erfitt að gera sér grein fyrir hverju er hægt að búast við, en ég tel þó að félagið eigi að getað sett stefnuna á eitt af efstu fimm sætunum í deildinni á komandi tímabili.“ sagði Sindri.

Þar sem Sindri er Haukamönnum ekki eins kunnugur og Óskar og Hafþór báðum við hann að lýsa sér í stuttu máli,
,,Ég myndi segja að ég væri köttur milli stanganna, maður er lítill og snöggur. Manni hefur oft verið líkt við Keylor Navas eða Iker Casillas“ sagði Sindri að lokum léttur í bragði.

 

Óskar og Hilmar Trausti

Óskar stóð sig gríðarlega vel síðari hluta tímabilsins í fyrra og hann var hæstánægður við undirskriftina.

,,Það er geggjað að semja við félagið til tveggja ára, hópurinn er virkilega skemmtilegur en að sama skapi gríðarlega metnaðarfullur. Ég er virkilega spenntur fyrir næstu tveimur árum hérna á Ásvöllum“ sagði Óskar.

Allir sömdu þeir við félagið til tveggja ára og bjóðum við þá Hafþór og Sindra velkomna til félagsins en miklar vonir eru bundnar við þessa alla þessa þrjá leikmenn á komandi keppnistímabili.