Þeir Aron Freyr Róbertsson og Alexander Freyr Sindrason framlengdu samninga sína við félagið í dag.
Aron Freyr kom til félagsins í ágúst í fyrra og skrifaði þá undir samning út síðasta leiktímabil. Aron lék níu leiki fyrir Meistaraflokk karla á undangengnu tímabili og skoraði í þeim leikjum eitt mark. Hann hefur nú ákveðið að framlengja samning sinn við félagið til ársins 2020 og verður því leikmaður Hauka að minnstakosti næstu tvö keppnistímabil. Aron er gríðarlega snöggur og jafnframt flinkur leikmaður en hann leikur ýmist stöðu bakvarðar eða kantmanns.
Alexander Freyr endurnýjaði einnig samning sinn í dag en hann var fjarri góðu gamni á síðasta tímabili þar sem hann varð fyrir því óláni að slíta krossbönd undir lok þarsíðasta keppnistímabils. Endurhæfingin hefur gengið vel og bundnar eru vonir við það að hann verði klár í slaginn fyrr eða síðar. Hann skrifaði undir samning við félagið sem gildir til ársins 2021. Það eru gleðifréttir fyrir okkur að Alexander hafi endurnýjað saming sinn við félagið en hann bar fyrirliðabandið áður en hann varð fyrir meiðslunum. Flestir ættu að kannast við Alexander en hann er stór og stæðilegur varnarmaður og mikill leiðtogi innan vallar sem utan.
,,Mér lýst bara virkilega vel á að hafa framlengt samning minn við félagið, ég kom hérna um mitt síðasta tímabil í fyrra og líkaði bara gríðarlega vel, svo að þetta var aldrei spurning um að framlengja þegar mér var boðið það. Hér er verið að vinna metnaðarfullt starf og ég tel að þetta sé staður þar sem að ég get bætt minn leik og á sama tíma hjálpað liðinu á ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur fyrir komandi ár.“ sagði Aron Freyr við undirskriftina.
Alexander Freyr var frá vegna meiðsla allt síðasta tímabil en hann var bjartsýnn fyrir komandi tímabil.
,,Það er fyrst og fremst virkilega ánægjulegt að framlengja við uppeldisfélagið mitt. Sérstaklega í ljósi þess ég er búinn að vera gríðarlega lengi frá vegna meiðsla en það breytir ekki þeirri staðreynd að maður er enn með mikið hungur í að gera betur, bæði sem einstaklingur og gera betur með liðinu. Ég er bjartsýnn á að við getum gert frábæra hluti á næstu árum hér á Ásvöllum.“ sagði fyrirliðinn Alexander Freyr.