Þeir Ellert Ingi Hafsteinsson, Jóhann Unnar Sigurðarson, Karl Guðmundsson og Þórarinn Jónas Ásgeirsson sóttu á dögunum námskeið á vegum KSÍ sem var sérstaklega sniðið að nýliðum í stjórnarstörfum, fólki sem situr í stjórnum knattspyrnudeilda. Námskeiðið var haldið í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal.
Námskeiðið, sem var sótt af 21 fulltrúa 12 aðildarfélaga KSÍ, stóð frá kl. 10:00 til 15:00. Í fyrri hlutanum fóru þau Jónas Gestur Jónasson og Birna María Sigurðardóttir frá Deloitte yfir ýmsa þætti – eins og helstu skyldur stjórnarfólks, stefnumörkun félaga, uppsetning og framkvæmd funda, fjárhagsáætlanir, skattamál, reglugerðir KSÍ og fleira. Jónas Gestur og Birna María hafa mikla reynslu af og þekkingu á fjármálum og rekstri knattspyrnufélaga.
Eftir léttan hádegisverð fóru þátttakendur göngutúr um mannvirkið og skoðuðu aðstöðu KSÍ og aðstöðu keppnisfólks á Laugardalsvelli í fylgd leiðsögumanns. Að síðustu var sett upp hringekja, þar sem þátttakendum var skipt upp í nokkra hópa, sem gengu á milli stöðva með 15 mínútna millibili. Á stöðvunum voru starfsmenn KSÍ, sem kynntu verkefni og hlutverk deilda innan KSÍ og ræddu ýmis mál við þátttakendur. Stöðvarnar skiptust í mótadeild og dómaramál, fræðsludeild, markaðs- og fjölmiðladeild, leyfiskerfi og félagaskipti og landslið.
Hægt er að sjá fleiri myndir frá námskeiðinu á vefsíðu KSÍ.