Haukar Íslandsmeistarar í Utandeild karla

Utandeildarlið Hauka í handbolta karla varð um helgina Íslandsmeistari Utandeildarliða eftir dramatískan sigur á liði Kórdrengja 28 – 27. Liðið varð í 4. sæti deildarinnar og var því síðasta liðið inn í úrslitin en í undanúrslitum slógu strákarnir út deildarmeistara Vals eftir hörkuleik 28 – 26. Í úrslitaleiknum mættu þeir svo liði Kórdrengja sem lenti í 2. sæti deildarinnar. Stákarnir léku hinsvegar frábæran leik og unnu að lokum dramatískan sigur 28 – 27 eftir að hafa verið undir í hálfleik 17 – 15 en sigurmarkið kom úr vítaskasti þegar að leiktíminn var búinn.

Liðið hefur æft í vetur einu sinni í viku og samanstendur af drengjum sem nánast allir hafa farið í gegnum yngri flokka starf Hauka. Í liðinu má líka finna fyrrverandi Íslandsmeistara úr meistarflokki Hauka eins og Matthías Árna Ingimarsson, Pétur Magnússon og Egill Eiríksson. Það var einmitt Egill sem tryggði sigurinn af vítalínunni með sínu 18. marki í leiknum.

Titlarnir streyma því inn á Ásvelli þessa daganna en nú er komið að meistarflokki karla að ná í Íslandsmeistaratitilinn en úrslitakeppnin hjá þeim hefst um helgina.