Elín Klara Þorkelsdóttir, leikmaður 3. flokks kvenna, hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við knattspyrnudeild Hauka.
Elín sem er fædd árið 2004 hefur komið við sögu í þremur leikjum með meistaraflokki kvenna í sumar í Inkasso deildinni og er ein af okkar efnilegu ungu leikmönnum í knattspyrnudeildinni. Þá hefur hún tekið þátt í úrtaksæfingum U15 landsliðs kvenna á þessu ári.
Elín er einn af lykil leikmönnum 3. flokks kvenna sem er nú að búa sig undir þátttöku í úrslitakeppni Íslandsmótsins og leikur í undanúrslitum í bikarkeppni 3. flokks kvenna þann 14. september nk. þar sem liðið mætir Fylki í Árbænum.
Þess má geta að Elín varð bæði deildar- og bikarmeistari með 4. flokki kvenna í handbolta á síðasta keppnistímabili en þar er hún einnig ein af lykil leikmönnum liðsins.
Knattspyrnudeild Hauka óskar Elínu innilega til hamingju með samninginn og bindur miklar vonir við hana í framtíðinni.