Það má með sanni segja að handboltinn sé kominn á fullt því að um helgina verða öll meistaraflokks lið Hauka í eldlínunni. Fjörið hefst í kvöld, föstudagskvöld, þegar að U-lið karla leikurinn sinn fyrsta leik þetta tímabilið en þá kemur Grótta í heimsókn á Ásvelli kl. 20:00 í Grill 66 deild karla. Það má búast við hörkuleik en Haukastrákarnir lentu í 2. sæti deildarinnar í fyrra og Grótta féll úr Olís-deildinni þannig að fyrir fram eru þetta tvö af toppliðum deildarinnar.
Meistaraflokkur kvenna spilar svo annan leik sinn í Olís-deilinni þegar að þær halda í Kórinn og spila þar við heimastúlkur í HK á laugardag kl. 16:00. Haukastúlkur byrjuðu ekki tímabilið vel en þær töpuðu fyrsta leik á heimavelli á móti Stjörnunni og mæta því dýrvitlausar í Kórinn, nýjann heimavöll HK, á laugardag. Einnig má búast við því að Sara Odden nýr leikmaður kvennaliðsins spili sinn fyrsta leik fyrir Hauka.
Meistaraflokkur karla lýkur svo helginni með því að etja kappi við Stjörnunna á Ásvöllum kl. 17:30 á sunnudag en Haukastrákar hafa byrjað tímabilið af krafti og náð í 2 sigra í fyrstu 2 leikjunum á meðan Stjarnan hefur tapað báðum leikjum sínum. Liðin mættust í hörku einvígi í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor þar sem að Haukar unnu 2-1 í leikjum og eiga því Stjörnumenn harm að hefna. Það má því búast við einn einum hörkuleiknum þessa helgina og er því um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna á þennan leik og hina tvo einnig. Áfram Haukar!