Knattspyrnudeild Hauka hefur samið við þá Daníel Ingvar Ingvarsson og Sævar Orra Valgeirsson en þeir eru báðir fæddir árið 2004 og eru á eldra ári í 3. flokki þar sem Luka Kostic er þjálfari. Þá hafa þeir einnig æft með 2. flokki félagsins undir stjórn Salih Heimir Porca og fengið tækifæri með meistaraflokki.
Daníel Ingvar er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað jafnt á miðju sem og í bakverði. Hann fór fyrir stuttu síðan á reynslu til skoska stórliðsins Glasgow Rangers þar sem hann stóð sig mjög vel.
Sævar Orri er framherji sem hefur verið mjög iðinn við markaskorun í yngri flokkum félagsins. Sævar var nýlega valinn í landsliðsúrtak hjá U 16 ára landsliði Íslands og fór hann á reynslu hjá pólska liðinu FC Stadion Śląski í vetur en það lið hefur getið sér gott orð í að búa til leikmenn fyrir ýmis stórlið.
Stjórn knattspyrnudeildar Hauka fagnar samningum við þá Daníel og Sævar og bindur miklar vonir við þá í framtíðinni. Stefna deildarinnar er að tryggja framúrskarandi yngri flokkastarf og byggja á uppöldum leikmönnum í meistaraflokkum en um leið að styðja við unga leikmenn sem fá jafnvel tækifæri á erlendri grundu.
Áfram Haukar!
Ljósm. Hulda Margrét