Um þessar mundir er unnið að gerð nýs grasvallar á Ásvöllum fyrir sunnan keppnisvöll félagsins. Nýi grasvöllurinn kemur í stað eldri grasvallar, en knatthúsið verður byggt þar sem grasæfingarsvæði félagsins er nú. Gert er ráð fyrir að hefja framkvæmdir við nýtt knatthús í byrjun næsta árs. Lengi hefur verið beðið eftir framkvæmdum við nýtt knatthús og því er ánægjulegt að bæjaryfirvöld ætli, nú sem fyrr, að standa að myndarlegri uppbyggingu á Ásvöllum.
Það var mikil framsýni forystumanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þegar Knattspyrnufélaginu Haukum var úthlutað íþróttavæði sunnan Reykjanesbrautar fyrir margt löngu. Í hugum margra var fyrirhugað íþróttasvæði langt frá íbúasvæðum, en málin áttu svo sannarlega eftir að breytast í tímans rás. Íþróttasvæði Hauka að Ásvöllum er einstakt og liggur við jaðar útivistarperlu þar sem Ástjörnin er miðdepill með gróskumiklu fuglalífi og friðsæld upplandsins í bakgarðinum.
Byggð á Hvaleyrarholti, Hvömmum og í Áslandi liggur nærri íþróttasvæði Hauka og nýju íbúasvæðin á Völlum, í Skarðshlíð og nú í Hamranesi hafa risið á ótrúlega skömmum tíma. Þá er ekki úr vegi að benda á hversu bæjarfélaginu hefur tekist vel til með gerð öruggra gönguleiða úr nærhverfum að Íþróttamiðstöð Hauka.
Já, það er sannarlega bjart yfir Knattspyrnufélaginu Haukum sem mun fagna 90 ára afmæli þann 12. apríl 2021.
Áfram Haukar!