Óliver Steinar Guðmundsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við ítalska liðið Atalanta. Knattspyrnudeild Hauka samþykkti kauptilboð ítalska liðsins í síðustu viku.
Óliver, sem er fæddur árið 2004, er afar efnilegur sóknarsinnaður miðjumaður sem spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki Hauka á síðasta tímabili og á að baki tvo leiki með U15 ára landsliði Íslands.
Óliver fór til reynslu hjá Atalanta í lok síðasta árs og aftur í janúar og mun æfa með U17 ára liði félagsins en þess ber að geta að akademían hjá Atalanta nýtur mjög mikillar virðingar á Ítalíu og í Evrópu. Þannig mun Óliver fá tækifæri til að æfa við bestu aðstæður hjá einu af toppliðum ítalska boltans sem einnig spilar í meistaradeild Evrópu.
Að Óliver gangi til liðs við jafn stórt félag og raun ber vitni er enn ein rósin í hnappagat barna- og unglingastarf knattspyrnudeildar Hauka og mikil viðurkenning fyrir þjálfara og afreksstarf deildarinnar. Markmið knattspyrnudeildar Hauka er að veita framúrskarandi þjálfun fyrir börn og unglinga þar sem iðkendur fá verkefni við hæfi hverju sinni sem og að hafa yfir að ráða vel menntuðum og reynslumiklum þjálfurum sem eru drifnir áfram af ástríðu.
Það er ljóst að Hauka fjölskyldan mun fylgjast náið með Óliver og óskar stjórn knattspyrnudeildar Hauka honum alls hins besta sem og Atalanta fyrir samskiptin í tengslum við félagaskiptin.