Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, sem ólst upp hjá Haukum og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá félaginu, hjálpaði í gær Juventus að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
Juventus tókst að leggja danska liðið HB Köge að velli, en það var Sara sem setti tóninn með góðu skallamarki snemma leiks.
Hægt er að sjá myndband af markinu með því að smella hérna.
Er þetta fyrsta markið sem Sara gerir hjá sínu nýja félagi – ítalska stórliðinu Juventus – en hún færði sig um set frá Frakklandi til Ítalíu í sumar.
Sara hefur unnið Meistaradeildina tvisvar með franska félaginu Lyon. Núna er það ljóst að hún mun taka þátt í riðlakeppninni í ár þar sem Juventus verður eitt af 16 liðum í riðlakeppninni í ár. Það er flottur áfangi hjá félaginu og Söru sömuleiðis.
Sara er þá í A-landsliðshópnum fyrir verkefnið stóra í næsta mánuði þar sem Ísland leikur eiginlegan úrslitaleik um sæti á HM á næsta ári.
Alexandra Jóhannsdóttir, sem einnig fékk sitt fótboltauppeldi á Ásvöllum, er líkt og Sara í hópnum. Alexandra gekk nýverið í raðir Fiorentina á Ítalíu og hefur farið vel af stað í nýju umhverfi – eins og landsliðsfyrirliðinn. Þær eru báðar gríðarlega flottar fyrirmyndir fyrir ungar Haukastelpur.
Við viljum þá óska Söru til hamingju með afmælið – hún er 31 árs gömul í dag. Til hamingju Sara!