Knattspyrnudeild Hauka hefur gert samning við markvörðinn Torfa Geir Halldórsson sem gildir út tímabilið 2024.
Torfi Geir, sem er fæddur árið 2004, kemur til liðs við Hauka frá Breiðabliki þar sem hann hefur varið markið í sterkum 2. flokki félagsins. Torfi er uppalinn í Fram en hefur einnig leikið með yngri flokkum Vals.
Torfi er mjög spennandi leikmaður. Hann er unglingalandsliðsmaður sem á að baki einn leik fyrir U17 landsliðið árið 2020 og var hann valinn í æfingahóp U19 á dögunum. Hann hefur verið á reynslu hjá stórum félögum eins og FC Kaupmannahöfn og Torino.
,,Mér líst mjög vel á að vera kominn í Hauka og fá að æfa við toppaðstæður með flottum hópi. Tímabilið leggst mjög vel í mig og ég er hrikalega spenntur fyrir sumrinu,“ segir Torfi og bætir við:
,,Fyrsta vikan er búin að vera mjög góð þar sem ég er búinn að vera að kynnast leikmannahópnum og þjálfarateyminu. Aðstaðan á Ásvöllum er til fyrirmyndar og æfingarnar eru góðar. Markmiðin mín með Haukum eru að þróa minn leik og hjálpa liðinu að verða betra. Markmið liðsins eru að fara í alla leiki til að vinna og reyna að enda eins ofarlega í deildinni og hægt er.“
Torfi er sjötti leikmaðurinn sem gengur í raðir liðsins frá því síðasta tímabili lauk. Fyrr í dag var tilkynnt um það að Aron Örn Þorvarðarson og Hallur Húni Þorsteinsson væru komnir á láni frá Fylki, en áður höfðu Kristján Gunnarsson, Styrmir Máni Kárason og Sævar Gylfason samið við félagið.
Haukar fagna komu Torfa Geirs til félagsins og binda miklar vonir við hann fyrir framhaldið.