Páskahátíðin er gengin í garð og við fögnum því að eiga notalegar stundir með fjölskyldu og vinum. Um páska gefst okkur einnig tækifæri til að njóta margvíslegra viðburða. Úrslitaviðureignir í körfubolta og handbolta eru framundan, uppskeruhátíð íþróttamanna og íþróttaunnenda, þar sem allt er lagt í sölurnar til að ná góðum úrslitum. Þá er knattspyrnuvertíðin handan við hornið, hlaupahópur fagnar hækkandi sól og karatefólkið okkar fagnar góðum árangri sinna iðkenda. Íþróttamiðstöð okkar á Ásvöllum iðar sem fyrr af lífi frá morgni til kvölds og úti heyrist vélarskrölt og tækjaglamur frá vinnuvélum þar sem nú er unnið hörðum höndum við byggingu myndarlegrar knatthallar og íbúða. Bygging knatthallarinnar er á áætlun og gert er ráð fyrir að þetta mikla mannvirki verði tekið í notkun í loks ársins. Á undanförnum misserum hefur verið unnið að margvíslegum framkvæmdum og endurbótum í Íþróttamiðstöð sem og á svæði félagsins. Við Haukar erum afar stolt af félaginu okkar og lítum björtum augum á framtíðina.
Gleðilega páskahátíð,
Magnús Gunnarsson,
formaður Knattspyrnufélagsins Hauka.