Rut Arnfjörð Jónsdóttir til liðs við Hauka
Handknattleiksdeild Hauka og Rut Arnfjörð Jónsdóttir hafa skrifað undir samning þess efnis að Rut spili með mfl. félagsins næstu 2 tímabil. Rut sem kemur til liðs við Hauka frá KA/Þór þarf vart að kynna fyrir handknattleiksáhugafólki enda er Rut ein besta handknattleikskona Íslands síðari ára.
Rut sem er 33 ára er uppalin í HK þar sem hún steig sín fyrstu skref í meistaraflokki 15 ára undir stjórn Díönu Guðjónsdóttur. Rut lék með HK í 3 tímabil áður en hún hélt á vit ævintýranna í Danmörku.
- 2008 – 2014 með Team Tvis Holstebro. Með liðinu vann hún EHF bikarinn árið 2013
- 2014 – 2016 með Randers HK þar sem hún vann danska bikarinn á seinna ári sínu.
- 2016 – 2017 með FCM Håndbold
- 2017 – 2020 með Team Esbjerg. Þar vann Rut danska meistaratitilinn 2019 og 2020.
- 2020 – 2024 með KA/Þór og strax á fyrsta ári vann hún alla titla með KA/Þór þegar þær urðu Íslands-, bikar og deildarmeistarar. Rut var það tímabil kosin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar ásamt því að vera valin besti leikmaður tímabilsins líkt og árið eftir.
Rut hefur leikið 115 landsleiki og skorað 244 mörk og á að baki 3 stórmót fyrir Íslands hönd og hefur 2 sinnum verið valin handknattleikskona ársins. Það þarf ekki að fjölyrða um þýðingu þess að Rut ákveði að koma til Hauka og má í rauninni segja að Rut sé að loka hringnum eins og hann byrjaði með Díönu þjálfara.
Við undirskriftina hafði Díana þetta að segja: „Með komu Rutar erum við að fá frábæran leikmann, með mikla reynslu og hæfileika sem gerir aðra leikmenn í kringum sig betri. Það er mikill fengur að fá Rut til Hauka þar sem liðið ætlar sér stóra hluti á næstu árum.
Ég þekki vel til Rutar enda var hún í fyrsta mfl. liðinu mínu hjá HK þegar ég byrjaði að þjálfa og ég hlakka mikið til að vinna með henni aftur.“
„Það er mjög flott uppbygging í gangi á Ásvöllum sem mig langar að taka þátt í. Þær eru með spennandi lið með ungum og efnilegum leikmönnum. Þetta eru metnaðarfullar stelpur sem hafa staðið sig mjög vel og ég sé að þær geta náð enn lengra. Umgjörðin í kringum liðið er mjög góð og ég finn að það er mikill metnaður fyrir kvennaboltanum í Haukum. Einnig eru þær með frábært þjálfarateymi sem ég hlakka til að vinna með,“ sagði Rut við undirskriftina.
Velkomin í Hauka Rut Jónsdóttir!