Niðurstaða dómstóla HSÍ vegna bikarleiks Hauka og ÍBV 2024 voru Haukum mikil vonbrigði, bæði í ljósi þess að Haukar unnu sannfærandi sigur gegn ÍBV og vegna þess að vinnubrögð HSÍ þykja ófagleg. HSÍ tók enga ábyrgð á bilunum í kerfi sem félög þurfa að nota, enga ábyrgð á reglum sem ganga þvert á aðrar reglur, enga ábyrgð á því að eftirlitsmaður á þeirra vegum mætti seint á tæknifund og að hann sinnti ekki sínum skyldum fyrir leikinn.
Dómstólar HSÍ drógu málsmeðferð óhóflega og þykir Haukum miður að dómarar áfrýjunardómstóls hafi ekki séð ástæðu til þess að málið hafi verið flutt munnlega og vitnaleiðslur farið fram í jafn mikilvægu máli, en þess í stað notað hugleiðingar eins og “virtist” og “bera með sér” til að komast að niðurstöðu.
Lög, reglur og leiðbeiningar handknattleikssambandsins bera þess merki að vera ekki yfirfarnar af löglærðum þar sem ýmis dæmi eru um ósamræmi innan þeirra. Umræddur málarekstur ber merki um það, þar sem ein regla er látin gilda en aðrar hunsaðar.
Allar orsakir sem ollu því að leikskýrsla var ekki tilbúin fyrr en 50 mín fyrir leik voru fyrir utan valdsvið Hauka. Mæting annara eða það að forritið sem leikskýrslur er slegnar inn í visti ekki það sem slegið er inn (um það eru mýmörg önnur dæmi) ætti ekki að vera á ábyrgð Hauka.
Þeir einu sem bera skarðan hlut frá borði eru leikmenn Hauka sem unnu heiðarlegan og sannfærandi 8 marka sigur á ÍBV. Eftirmálarnir eru hins vegar skammarlegir og ekki í samræmi við tilgang reglna eða hvar leikir skulu vinnast.
Staðreyndirnar tala sínu máli:
- Liðstjóri ÍBV setur ekki inn PIN þegar hann hefur sett upp sitt lið svo hægt væri að prenta út leikskýrslu til undirbúnings tæknifundar, heldur lætur sig hverfa.
- Eftirlitsmaður mætir 70 mínútum fyrir leik.
- Liðsstjóri ÍBV mætir 62 mínútum fyrir leik á tæknifund þar sem allir bíða eftir honum, en það þurfti að ná í hann að beiðni eftirlitsmanns sem var orðinn mjög órólegur yfir því að fulltrúi ÍBV væri ekki mættur á fundinn.
- Það lið sem Haukar settu inn í HB ritara var ekki vistað rétt í kerfi HB ritara, en það kemur ekki í ljós fyrr en við útprentun leikskýrslu.
- Engar mótbárur voru við því að sú rangfærsla væri leiðrétt strax á tæknifundinum.
- Farið var yfir útprentun á leiðréttri skýrslu á tæknifundi og enginn mótmælti henni.
- Leikurinn var spilaður samkvæmt þeirri leiðréttri skýrslu sem eftirlitsmaður sjálfur mætti með til leiks án athugasemda hans eða annara, hvorki í upphafi leiks né þegar umræddur leikmaður kom við sögu í leiknum.
- Í umgjarðarskýrslu skráir eftirlitsmaður að leikskýrsla hafi ekki verið tilbúin fyrr en 50 mínútum fyrir leik. Sem er rétt og hefur ekki verið neitað, enda bera Haukar enga ábyrgð á því.
- Í umgjarðarskýrslu skráir hann einnig að hann hafi tilkynnt aðilum að ekki mætti breyta leikskýrslu, sem er í þversögn við það að hún hafi verið tilbúin 50 mínútum fyrir leik. Hann tilkynnti eftir tæknifund að hann myndi geta þess að leikskýrsla hefði verið tilbúin of seint en nefndi ekkert um meintar breytingar við Hauka eins og fyrri dómur les úr skýrslu hans. Ekkert af því sem honum ber að gera skv. reglum gerir hann og heldur því svo fram eftir leik að atburðarrásin hafi verið önnur en hún var.
- Greinargerð HSÍ í málinu er ekki í samræmi við raunverulega framkvæmd leikja né er hægt að fara eftir henni með núverandi uppsetningu HB ritara. Sömuleiðis má finna þversögn í greinargerð HSÍ hvað þetta varðar.
- Forysta HSÍ hefur frá upphafi þessa máls viðurkennt að reglurnar eru ekki orðaðar í samræmi við tilgang þeirra og vankanta við greinargerð en neitað að leiðrétta formlega.
- Forritið HB ritari er ekki í stakk búið til að vera sá ráðandi þáttur sem menn vilja þar sem það er ljóst að það eru talsverðir annmarkar á því. Mýmörg dæmi hafa komið fram þar sem forritið HB ritari ýmist skiptir út fyrir aðra eða setur inn leik- eða starfsmenn annara félaga inn á leikskýrslu við stofnun hennar.
- Í reglum HSÍ er það skýrt að “Ef koma upp tæknileg vandamál varðandi leikskýrslu í HB ritara skal leggja fram handskrifaða skýrslu og er það sú leikskýrsla sem gildir”
- Skv. reglum HSÍ skal fara yfir leikskýrslu á tæknifundi og hún staðfest, þegar það var gert kemur í ljós að hún hefur ekki vistast rétt í grunn HSÍ og er því leiðrétt og er því ekki hægt að tala um að henni hafi verið breytt fram að því.
- Í þessu sambandi má einnig benda á að engin bein viðurlög eru skilgreind í lögum HSÍ fyrir því að breyta leikskýrslu innan við 60 mínútum fyrir leik og ekkert sem segir að leikskýrsla fyrir meinta breytingu sé sú sem leikurinn skuli spilast eftir.
Dómurinn byggir á 32. gr. reglugerðar HSÍ um ólöglega skipað lið og að inná leikvöllinn hafi komið leikmaður sem ekki var á leikskýrslu. Sem getur ekki talist rétt þar sem leikurinn spilaðist á leiðréttri leikskýrslu þar sem umræddur leikmaður var sannarlega skráður.