Í sumar verða þjálfaraskipti hjá meistaraflokki karla en samningur Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar rennur þá út. Nýr þjálfari tekur þá við sem þekkir fjalir Ásvalla vel en það er Gunnar Magnússon. Gunnar þjálfaði meistaraflokk karla frá 2015 – 2020 en undir hans stjórn varð liðið Íslands- og deildarmeistari 2016 og deildarmeistari 2019 en það ár tapaði liðið í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
Síðan Gunnar þjálfaði Hauka hefur hann þjálfað Aftureldingu þar sem liðið varð bikarmeistari árið 2023 en þá lagði hann einmitt Haukaliðið í hörkuleik. Síðastliðið vor fór hann svo með Aftureldingarliðið í úrslit Íslandsmótsins.
Ljóst er að Haukar eru að fá sigursælan og reynslumikinn þjálfara til liðs við félagið til að leiða liðið áfram í baráttunni um alla þá titla sem eru í boði.
Að sama skapi er eftirsjá í Ásgeiri Erni enda mikill Haukamaður en hann hefur þjálfað Haukaliðið síðan í nóvember 2022 og fór hann með Haukaliðið í úrslit um Íslands- og bikarmeistaratitilinn 2023. Ásgeir Örn skilar af sér góðu búi en margir ungir og efnilegir Haukamenn eru núna í lykilhlutverki liðsins sem spennandi verður að sjá á næstu árum.
Haukar þakka Ásgeiri Erni fyrir ómetanlegt starf fyrir félagið en því er ekki alveg lokið því að liðið er enn í baráttunni um tvo titla á tímabilinu þar sem liðið er komið í 8-liða úrslit Evrópubikarsins og úrslitakeppnin handan við hornið og klárt að Ásgeir Örn vill skilja við liðið á sem bestan máta.
Áfram Haukar!