Í dag voru tveir leikir á Ásvöllum. Fyrst tóku stelpurnar okkar á móti Val og síðan strákarnir okkar á móti Stjörnunni. Báðir leikirnir voru mjög mikilvægir, stelpurnar eru í baráttu við Val um 3. sætið og strákarnir í fallbaráttu.
Stelpurnar byrjuðu mun betur í sínum leik. Þær komust í 7-4 og 13-7. Staðan í hálfleik var 14-8 okkar stelpum í vil. Ramune var búin að skora 6 mörk í fyrri hálfleiknum.
Í síðari hálfleiknum þróaðist leikurinn mjög svipað og í fyrri hálfleik, stelpurnar okkar voru með forystu allan tímann og endaði leikurinn með 7 marka sigri, 28-21.
Markahæst í liði Hauka var Ramune með 9 mörk, næst kom Sandra með 7 mörk. Hanna og Nína skoruðu svo 6 mörk, aðrir leikmenn komust ekki á blað.
Markahæst í liði Vals var Alla Georgijsdóttir með 4 mörk, Drífa og Rebekka Skúladætur skoruðu svo 3 mörk hvor.
Það sem er athyglisvert að Valsstelpur fóru aldrei útaf en Haukastelpurnar voru útaf í 10 mínútur. Haukaliðið var síður en svo grófara liðið.
Með sigrinum komust stelpurnar upp í 3. sæti, upp fyrir Val. Þær eiga einn leik eftir í deildinni en hann er á laugardaginn þegar þær sækja Gróttu heim á Seltjarnarnes. Sá leikur er úrslitaleikur um 2. sætið í Íslandsmótinu.
Strákarnir mættu svo Stjörnunni klukkan 20. Mikið stress var fyrir leikinn á Ásvöllum og margir komnir með hnút í magann. Það var því mikilvægt fyrir strákana að sýna sinn besta leik í vetur og sýna að þeir eiga heima í úrvalsdeild.
Leikurinn var jafn á nánast öllum tölum fram að 8-8. Þá komust Stjörnumenn tveimur mörkum yfir og skiptust á að hafa eins og tveggja marka forystu. Staðan í hálfleik var 12-13 Stjörnunni í vil.
Strákarnir okkar komu mjög ákveðnir til leiks í síðari hálfleik. Þeir komust yfir 15-14 og eftir það höfðu þeir forystu það sem eftir lifði leiks. Leikurinn endaði svo með 29-21 sigri.
Markahæstur í liði Hauka var Árni Þór með 8 mörk. Jón Karl skoraði svo 7 mörk.
Markahæstur hjá Stjörnunni var Petrekur Jóhannesson með 10 mörk, þar af 5 úr vítum, og Ívar Markússon með 3 mörk.
Eitt rautt spjald var sýnt í leiknum en það fékk Guðmundur Guðmundsson í Stjörnunni fyrir ljótt brot í lok leiksins þegar hann keyrði Freyr niður í hraðarupphlaupi. Brot sem ekki á að sjást á handboltavellinum.
Stjörnumenn fengu 9 víti í leiknum, skoruðu úr 5 en Magnús og Björn Ingi vörðu 4.
Haukar fengu 3 víti og skoruðu úr öllum.
Til gamans má geta að þessi leikur var fyrsti leikur Viggós Sigurðssonar í þrjú ár á Ásvöllum. Það var því við hæfi að mikilvægur sigur kæmi út úr þeim leik.
Strákarnir eru komnir í betri stöðu í deildinni en þeir eru tveimur stigum fyrir ofan Fylki. Auk þess hafa strákarnir okkar betri innbyrðis og er því ekki nóg fyrir Fylki að jafna okkur að stigum. Fylkir tapaði í kvöld á móti Akureyri og ÍR tapaði gegn HK.
Tveir leikir eru eftir í deildinni. Strákarnir okkar leika næst á móti HK á sunnudaginn klukkan 16:00. Fjölmennum á leikinn og hvetjum okkar stráka til sigurs.
Það var því góður dagur á Ásvöllum og fólk kátt að leikjum loknum.
ÁFRAM HAUKAR!!!