Tveir leikir á miðvikudaginn

Á miðvikudaginn leika meistaraflokkarnir okkar tvo leiki. Klukkan 18:15 fara stelpurnar okkar í heimsókn í Vodafone höll Valsmanna og leika þar gegn heimastelpum í Val í N1 deildinni. Stelpurnar í Val töpuðu sínum fyrsta leik sínum í vetur á sunnudaginn þegar þær töpuðu gegn Fram með einu marki og sitja þær í 3. sæti deildarinnar með 10 stig. Okkar stelpur hafa tapað þremur leikjum í vetur, unnið tvo og gert eitt jafntefli og sitja í 5. sæti deildarinnar með 6 stig.

Eftir leikinn í Vodafone höllinni bruna allir beint á Ásvelli því klukkan 20:00 mæta strákarnir okkar liði HK í N1 deildinni. Liðin eru jöfn í 2. og 3. sæti deildarinnar með 9 stig, en Fram er einnig með 9 stig. Okkar strákar unnu sannfærandi sigur á Aftureldingu í síðustu umferð og í sömu umferð unnu HK menn Fram með tveimur mörkum. Bæði liðin hafa sigrað 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 1 leik.

Mætum á leikina og hvetjum okkar fólk til sigurs í þessum gríðarlega mikilvægu leikjum.

ÁFRAM HAUKAR!!