Á morgun, miðvikudag, og á fimmtudaginn spila meistaraflokkar karla og kvenna sin hvorn stórleikinn. Á morgun taka strákarnir okkar á móti Valsmönnum á Ásvöllum og á fimmtudaginn fara stelpurnar í heimsókn í Mýrina í Garðabæ og leika þar gegn Stjörnustelpum.
Strákarnir taka á móti Valsmönnum á morgun klukkan 19:00 en Haukar og Valur eru eins og margir vita bræðrafélög, bæði stofnuð af KFUM leiðtoganum sr. Friðriki Friðrikssyni. Leikurinn er í áttundu umferð N1 deildarinnar, eða fyrsti leikur liðanna í 2. umferð deildarinnar. Liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar þegar okkar menn heimsóttu Vodafone höllina. Okkar menn höfðu þar betur 23-20.
Fyrir leikinn eru okkar strákar í 4. sæti með jafnmörg stig og HK, Stjarnan og Fram sem planta sér í fyrstu þrjú sæti deildarinnar. Öll liðin eru með 11 stig og hafa leikið 8 leiki nema okkar menn sem einungis hafa leikið 7. Það þýðir að ef okkar menn sigra leikinn á morgun komast þeir einir í efsta sæti deildarinnar. Valur er í 5. sæti deildarinnar með 7 stig eftir 7 leiki. Þeir eru stigi á undan Aftureldingu sem er í 6. sæti og tveimur stigum á undan Akureyri í 7. sæti. ÍBV er í neðsta sæti deildarinnar með ekkert stig.
Markahæstur í liði Haukamanna er fyrrverandi leikmaður Valsmanna, Freyr Brynjarsson. Hann hefur skorað 35 mörk í leikjunum 7 en næstu4 á eftir honum kemur Andri Stefan með 32 mörk. Baldvin Þorsteinsson er markahæstur leikmanna Vals með 36 mörk í leikjunum 7 en næstur á eftir honum er Fannar Þór Friðgeirsson með 34 mörk.
Þjálfari Haukamanna er eins og við vitum Aron Kristjánsson sem er að þjálfa í fyrsta sinn í efstu deild á Íslandi. Þjálfari Vals er Óskar Bjarni Óskarsson sem þjálfað hefur lið Vals síðustu ár og gerði liðið að Íslandsmeisturum í fyrra.
Á fimmtudaginn er svo komið að stórleik hjá stelpunum. Þá fara þær í heimsókn í Mýrina, nýtt íþróttahús Stjörnumanna. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og er í 8 liða úrslitum Eimskipsbikarsins.
Stelpurnar hafa tvívegis mætt Stjörnustelpum í vetur. Fyrst var það í leik um meistara meistaranna en þar höfðu okkar stelpur betur 32-26 í Ásgarði en það var síðasti leikur Stjörnunnar í Ásgarði. Síðari leikurinn var leikinn á Ásvöllum en okkar stelpur töpuðu þeim leik 16-18. Það má því búast við hörkuleik á fimmtudaginn eins og alltaf þegar þessi lið mætast.
Díana Guðjónsdóttir er þjálfari okkar stelpna eins og við vitum. Hún hefur þjálfað lið HK síðustu ár með góðum árangri.
Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Stjörnustelpna en hann hefur þjálfað lið Stjörnunnar, Gróttu og ÍBV á síðustu árum hér heima.
Í N1 deildinni eru Stjörnustelpur í efsta sæti deildarinnar með 15 stig eftir 8 leiki. Okkar stelpur eru í 5. sæti með 8 stig einnig eftir 8 leiki. En gleymum því ekki að í bikarnum segir staðan í deildinni aldrei neitt um leikina og liðin sem eru neðar stríða gjarnan liðunum sem eru í toppbaráttunni. Við vonum að sjálfsögðu að það verði raunin á fimmtudaginn.
Við hvetjum fólk til að fjölmenna á þessa tvö leiki og styðja okkar lið til sigurs.
Miðvikudagur Ásvellir 19:00 Haukar – Valur N1 deild karla
Fimmtudagur Mýrin 19:00 Stjarnan – Haukar Eimskipsbikar kvenna
ÁFRAM HAUKAR!!