Viðtal við Aron Kristjánsson

Við tókum þjálfara meistaraflokkanna á létt spjall og spurðum nokkurra spurninga fyrir heimasíðuna. Hér kemur viðtal við Aron Kristjánsson þjálfara meistaraflokks karla.


Jæja Aron, fyrsta spurningin hlýtur að vera einföld, hvernig er að vera kominn heim til að þjálfa Haukana?
Það er bara nokkuð gott. Það hefur verið tekið vel á móti mér og liðið hefur farið vel af stað.

Nú er liðið í 4. sæti með 11 stig eftir 7 leiki, með jafnmörg stig og HK, Fram og Stjarnan sem eru í 1. – 3. sæti og hafa leikið 8 leiki. Liðið er einnig komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar eftir að hafa sigrað Val 2 og ÍR 2 í umferðunum á undan. Er þetta árangur sem þú áttir von á í upphafi?
Við erum nokkuð ánægðir með það að vera í toppsætinu ásamt þessum þremur liðum. Við vissum að værum að byggja upp til lengri tíma og því var það spurning hvernig við færum af stað með nýtt lið og nýjar áherlsur. Því má segja að ég sé ánægður með byrjunina þar sem við erum að berjast á toppnum.

Er eitthvað sem kemur þér á óvart í N1 deildinni?
Deildin er einstaklega jöfn í ár og gerir það mótið ennþá skemmtilegra. Það er þó nokkuð af mjög efnilegum leikmönnum í deildinni, þó svo að vanti þessar týpísku stórskyttur.

Nú er kominn stór styrktaraðili á deildina og mikill metnaður virðist
vera í gangi hjá HSÍ og N1 um að gera sem best fyrir íþróttina. Finnst þér þetta vera að skila árangri, t.d. í áhorfendasókn og finnst þér jafnmikið horft til kvennaboltans eins og karlaboltans?
Það er mjög jákvætt að fyrirtæki eins og N1 og Eimskip séu kominn á fullt í handboltann. Þetta á eftir að styrkja markaðssetninguna á íþróttinni ennfrekar og auka áhugann á henni. Umgjörð leikja hefur bæst mikið og höfum við í Haukunum verið að brydda upp á nýjungum á heimaleikjum sem hefur skilað sér vel.  Aðsókn á okkar heimaleikjum hefur aukist um nokkur 100% miðað við sama tíma í fyrra. Þetta fyrirkomulag á eftir að skila sér bæði fyrir kvenna og karlahandboltann. Aðsókn á kvennaleiki er ekki eins mikil í dag og vonandi mun það bara lagast með auknum áhuga á íþróttinni.

Hvað finnst þér vanta í umgjörðina á deildinni?
Við erum rétt að byrja og það er ljóst að bæta má ýmislegt. Ég held að það snúist mikið um að auka upplifun áhorfenda. Þetta þarf að vera meira en einungis 2 x 30 mín. Annars sakna ég sjónvarpsins mikið í allri umgjörð í kringum deildina.

Hvað með sjónvarpsleiki? Finnst þér sjónvarpið vera að sinna deildinni eins vel og hægt væri?
Mér finnst sjónvarpið sinna þessu mjög illa. Miðað við þá stöðu sem þeir eru í dag og sérstöðu handknattleiks í þjóðarsálinni þá finnst mér það ótrúlegt að þeir geri ekki meira úr umfjöllun á handknattleik. Þeir gætu gert þetta að barninu sínu og blásið upp íslensku deildina sem og leiki landsliðsins. Þeir gætu farið ýmsar leiðir í því að kynna íslenskan handknattleik og aukið áhuga á deildinni til muna. Þeir gætu t.d. verið með sér umræðuþátt um deildina, komið í heimsókn til liðanna sem eiga sjónvarpsleik og tekið viðtöl o.s.frv

Í mörgum viðtölum er spurt: ef þú værir forseti í einn dag hverju myndir þú breyta. En við ætlum að spyrja þig: Ef þú værir formaður HSÍ í einn dag, hverjum myndir þú breyta?
Þú segir nokkuð…..

 En svo við snúum okkur að stórleiknum sem er á morgun. Hvernig leggst stórleikurinn við bræður vora í Val?
Mjög vel. Þeir stóðu sig vel í meistaradeildinni um daginn þar sem þeir unnu stórlið Celje Lasko frá Slóveníu. Það eru venjulega miklir baráttuleikir milli þessara liða og það verður væntanlega enginn undantekning á morgun.

Með sigri í leiknum kemst liðið í efsta sæti deildarinnar. Er það ekki
staðurinn sem við Haukamenn viljum og eigum að vera á?
Við munum mæta einbeittir til leiks og gera allt sem í okkar valdi stendur til að sigra.

Nú er liðið komið í 8 liða úrslit bikarkeppninnar. Mótherjarnir hingað til hafa nú ekki verið þeir erfiðustu, fyrst Valur 2 og svo ÍR 2, en þeir fara nú að þyngjast þegar nær dregur úrslitaleiknum. Sérð þú Haukaliðið komast alla leið?
Í bikarkeppninni snýst þetta um að vinna næsta leik. Liðin í deildinni eru mjög jöfn og snýst þetta því um dagsformið og sigurviljann. Við eigum sömu möguleika og hin toppliðin i deildinni.

Verða bikarar í hús á Ásvöllum í vetur?
Markmið vetrarins er að vera í topp 4 í deildinni. Hvaða sæti af þeim fjórum það verður verður tíminn að leiða í ljós. Við ætlum einnig að vera í titlabaráttunni í öðrum keppnum. Það yrði mjög sætt að ná að landa titli í vetur.

Er eitthvað sem Aron vill koma á framfæri til stuðningsmanna Hauka og annarra sem lesa síðuna okkar?
Ég vil biðja fólk um að vera duglegt við að mæta á leikina í vetur og taka þátt í þeirri jákvæðu uppbyggingu sem á sér stað á Ásvöllum.

Við þökkum Aron kærlega fyrir þetta og vonum að gott gengi hingað til eigi eftir að haldast út tímabilið.