Jafntefli gegn Val

Strákarnir okkar tóku á móti Valsmönnum á Ásvöllum í kvöld. Valsmenn skoruðu fyrsta markið en okkar menn komust yfir í stöðunni 4-3. Eftir það juku þeir forskotið og náðu mest 5 marka forskoti í fyrri hálfleik, 11-6. Staðan í hálfleik var 14-11 okkar mönnum í vil.

Síðari hálfleikurinn var jafn og spennandi allan tímann. Valsmenn náðu að jafna í stöðunni 19-19og komust svo yfir 19-20. Leikurinn var í járnum síðustu mínúturnar og komust okkar menn yfir 22-21 þegar rétt um hálf mínútu var eftir. Valsmenn brunuðu í hraðarupphlaup og Baldvin Þorsteinsson náði að skora jöfnunarmarkið, 22-22 lokastaðan.

Eftir leikinn eru okkar menn í öðru sæti deildarinnar með 12 stig eftir 8 leiki. HK eru efstir með 13 stig eftir 9 leiki og Fram og Stjarnan eru jöfn í 3. og 4. sæti með 11 stig.

Næsti leikur strákanna er í Vestmannaeyjum á laugardaginn klukkan 15.