Að stíga sín fyrstu skref

Hjólahópur Hauka á sinni fyrstu æfinguAð nálgast sjálfan sig eru kannski mikilvægustu skrefin sem maður tekur í átt til betri heilsu. Það getur enginn hreyft sig, skokkað, hjólað eða yfir höfuð gert eitt eða neitt á forsendum annarra. Allt verður að miðast við mann sjálfan. Hópurinn okkar hefur vaxið úr því að vera örfáir sérvitringar sem hittust og skokkuðu sér til heilsubótar, yfir í að vera fjöldahreyfing sem lifir sjálfstæðu lífi okkur öllum til heilla. Síðasta æfing var hreint mögnuð……. Hvar sér maður 87 manns á einni æfingu? Nýliðum fjölgar og fjölgar. Ekkert okkar fæddist með hlaupaskóna á tánum og reyndar reimuðum við flest hlaupaskóna á okkur afar seint. Sum okkar hafa stundað hreyfingu einn veg eða annan nánast alla sína tíð en flest okkar voru komin vel á fullorðinsárin þegar Hreyfingar-bakterían ýtti við okkur. Öll eigum við það þó sameiginlegt að stunda hreyfingu á okkar forsendum. Hjólahópurinn er að stíga sín fyrstu skref (kannski örfáir sérvitringar núna en 80 manns að ári, hver veit).

Fyrir nýliða má setja upp nokkra markpósta til  að stefna að:

  • Það er risamarkmið að ná að skokka samfellt 5km. – Vellíðanin sem um mann hríslast þegar þetta markmið næst í fyrsta skipti er engu lík.
  • Að ná 10 km af samfelldu skokki er afrek. – Þarna staldra flestir við og segja “ þetta gat ég“ (með undrunartón)
  • Að ná 10 km undir 60 mín. er múrbrjótur – Héðan er ekki aftur snúið. Héðan er ekkert nema upp á við.

Ég hef engan hitt sem er nýbyrjaður að skokka eða hreyfa sig sem „ekki“ getur náð þessum markmiðum.
Ég hef heldur engan hitt sem er nýbyrjaður að skokka eða hreyfa sig sem trúir því 100% í byrjun að „hann“ geti náð þessum markmiðum.
Þetta er jú aðeins fyrir MIKLA hlaupara.
Við þessir MIKLU hlauparar byrjuðum þarna líka. Við þurftum að æfa okkur upp að 5km markinu.
Við þurftum að æfa okkur upp að 10km markinu. Við þurftum að æfa til að komast undir 60mín.
Allt var þetta eitt skref í einu – og muna að stíga fyrsta skrefið rólega en með markmiði.

HVORT SEM ÞÚ SKOKKAR, LABBAR EÐA HJÓLAR…..ÞETTA ERU ÞÍNIR KÍLÓMETRAR ÞETTA ERU ÞÍNAR FORSENDUR!
 
Upplýsingar um æfingar, hvort sem þú vilt hlaupa eða hjóla:
http://haukarhlaupa.blogspot.com/
 
Með bestu kveðju,
Anton M.

s. 864-3326