Actavísmót Körfuknattleiksdeildar Hauka var haldið um helgina og heppnaðist mótið frábærlega!
Met þátttaka var á mótinu þetta árið en 104 lið með 650 strákum og stelpum mættu á mótið í ár ásamt um 1.300 foreldrum og aðstandendum leikmanna. Leikið var stanslaust á 6 völlum frá 9:00 til 16:30 báða dagana og voru leikirnir alls 168. Í ár þá tóku lið frá KR, Keflavík, Stjörnunni, Snæfelli, Grindavík, Fjölni, Reykdælum, Njarðvík, Hamri og Breiðablik ásamt gestgjöfunum Haukum þátt í mótinu.
Stuðningsmenn liðanna mættu vel til að styðja sín lið en allir leikmenn sem taka þátt í mótinu eru sigurvegarar og fengu verðlaun frá aðalstyrktaraðila mótsins Actavís í mótslok. Hafnarfjarðarbær styrkti mótið nú eins og undanfarin ár en það hefur nú verið haldið nú í 8 ár samfellt og vex með hverju árinu og er orðinn árlegur viðburður í íþróttabænum Hafnarfirði.
Barna- og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Hauka sá um undirbúning, skipulagningu og framkvæmd mótsins undir styrkri stjórn Gísla Guðlaugssonar mótsstjóra og Sigurðar Guðmundssonar formanns barna- og unglingaráðs. Gestir Hauka voru á einu máli um að mótið í ár hafi tekist mjög vel þökk sé um 100 sjálfboðaliðum sem komu úr stjórn og ráðum Körfuknattleiksdeildarinnar ásamt þjálfurnum og leikmönnum í meistara-, unglinga,- stúlkna-, og drengjaflokkum.
Ríkissjónvarpið var með frétt um mótið sem sjá má hér
Á Karfan.is er myndasafn frá mótinu
Einbeiting og leikgleði skein úr hverju andliti leikmanna á mótinu þar sem allir fara heim sem sigurvegarar með verðlaunapening og bros á vör eftir skemmtilegt mót!
Einbeittur leikmaður Keflavíkur
Hvar er boltinn?