Alexander Freyr Sindrason og Davíð Sigurðsson hafa samið við knattspyrnudeild Hauka um að spila með meistaraflokki karla í 2. deildinni á komandi keppnistímabili.
Alexander, sem spilar sem hafsent, er uppalinn í Haukum og spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki árið 2011 en hann er fæddur árið 1993. Alexander, sem hefur spilað yfir 200 meistaraflokksleiki, kemur aftur heim Ásvelli frá HK þar sem hann spilaði í Pepsí Max deildinni tímabilin 2019 og 2020 en á síðasta tímabili var hann á láni hjá Fjölni í Lengjudeildinni þar sem hann spilaði alla leiki.
Davíð, fæddur 1992, er sterkur varnarmaður sem getur bæði spilað sem miðvörður og bakvörður en hann á að baki yfir 100 leiki með meistaraflokki. Davíð þekkir vel til hjá Haukum en hann spilaði með liðinu 2017 og 2018 en hann er uppalinn í FH og hefur einnig spilað með Fram, Reyni Sandgerði, Þrótti Reykjavík, ÍH og Aarhus Fremad.
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, fagnar komu þeirra Alexanders og Davíðs.
,,Þeir eru flottir karakterar sem koma með gæði, reynslu og metnað inn í okkar hóp og verða mikilvægir hlekkir í að meistaraflokkur karla verði með samkeppnishæft lið í sumar enda er markmiðið að sjálfsögðu að koma Haukum aftur í Lengjudeildina.
Alexander er alinn upp á Ásvöllum og stuðningsmenn Hauka vita að þar er á ferðinni sterkur hafsent með stórt Haukahjarta þannig að það er mikið fagnaðarefni á meðal allra Haukara að fá hann aftur heim.
Við Haukarar þekkjum einnig Davíð og hann er leikmaður sem gefur allt í leikinn. Hann getur spilað nokkrar stöður og er því frábær viðbót við okkar hóp og þá er hann, eins og Alexander, stór karakter sem lætur í sér heyra. Við væntum mikils af þeim báðum.“
Ljósm. Hulda Margrét