Það verður sannkallaður stórleikur hjá strákunum í handboltanum á morgun, þriðjudag, þegar að þeir leika oddaleik í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í Schenkerhöllinni gegn Akureyri.
Liðin hafa hingað til unnið sitthvorn leikinn Haukar þann fyrsta í Schenkerhöllinni 33 – 24 og svo unnu Akureyringar fyrir norðan á laugardaginn 25 – 21. Það má búast við hörkuleik en um er að ræða hreinan úrslitaleik um hvort liðið mæti ÍBV í undanúrslitum. Í tilefni að leiknum fékk heimasíðan þjálfara Haukaliðsins í létt spjall um leikinn sem er framundan sem og síðasta leik liðanna.
Jæja Gunnar nú er komið að oddaleik gegn Akureyri þar sem allt tímabilið er undir. Segðu okkur aðeins frá leiknum á laugardaginn, hver var þín upplifun á leiknum?
“Mín upplifun var bara sú að við vorum ekki nógu góðir. Akureyri spilaði mjög vel og við mætum bara ekki nógu klárir í þennan leik.”
Hvað var öðruvísi en í fyrsta leiknum?
“Já það var í raun allt öðru vísi, vörn og markvarsla var ekki eins góð, sóknin ekki heldur og við fengum fá hraðupphlaup.“
Nú eiga leikir í úrslitakeppni það til að vera aðeins harðari en leikir í deildarkeppni, lendu þið Haukamenn undir í baráttunni fyrir norðan?
“Já það má segja það. Við vissum að þeir myndu taka fast á okkur enda voru þeir upp við vegg.”
Nú var þetta þetta fyrsta tap Hauka gegn Akureyri í vetur á þetta eftir að slá ykkur eitthvað útaf laginu eða er fókusinn bara kominn á næsta leik?
“Við höfum nú sem betur fer ekki tapað mörgum leikjum í vetur. Við höfum hins vegar alltaf lært mikið á þessum leikjum þar sem við höfum misstigið okkur og komið sterkari til baka. Við ætlum bara að mæta og sýna úr hverju við erum gerðir!”
Við hverju má búast í oddaleiknum?
“Þetta verður hörku leikur enda mikið undir. Strákarnir eru einbeittir og ég get lofað ykkur því að þeir mæta tilbúnir til leiks. Þetta verður erfitt en við ætlum okkur áfram.”
Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?
“Ég vill að sjálfsögðu hvetja fólk til að fjölmenna og styðja strákana.”
Það má því búast við hörku leik og flottum handbolta þegar liðin mætast á morgun, þriðjudag, kl. 19:30 í Schenkerhöllinni og um að gera fyrir Haukafólk eins og Gunnar þjálfari bað um að fjölmenna og styðja strákanna til sigurs. Áfram Haukar!