Andlátsfrétt

Þau sorglegu tíðindi bárust á gamlársdag að góður starfsmaður Hauka til áratuga, Bjarni Hafsteinn Geirsson, hafi látist eftir skammvinn veikindi. Haddi Geirs, eins og hann var ævinlega kallaður, markaði djúp spor í sögu okkar Haukanna. Bjarni Hafsteinn var á unga aldri góður handknattleiksmaður, hann sat um tíma í stjórn Knattspyrnufélagsins Hauka og gengdi þar lengi starfi gjaldkera og síðar sem framkvæmdastjóri aðalstjórnar félagsins. Þá var Bjarni Hafsteinn um tíma formaður handknattleiksdeildar Hauka. Bjarni Hafsteinn kom að uppbyggingu félagsins um áratuga skeið bæði sem starfsmaður og ekki síður var hann metnaðarfullur um framgang alls félagsstarfs innan Hauka.
Knattspyrnufélagið Haukar minnist góðs vinar og félaga og vottar fjölskyldu og aðstandendum Bjarna Hafsteins innilegrar samúðar. Hadda Geirs verður sárt saknað hér á Ásvöllum.

f.h. Knattspyrnufélagsins Hauka,
Magnús Gunnarsson,
formaður.