Andri Marteinsson framlengir við Hauka

HaukarAndri Marteinsson þjálfari Hauka skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Hauka í dag en þetta var tilkynnt á fréttamannafundi sem haldinn var á Ásvöllum í hádeginu.

Andri hefur gert góða hluti með Hauka en hann tók við liðinu fyrir tímabilið 2007 þegar Haukar voru í 2.deildinni.

Í fyrstu tilraun komust Haukar upp í 1.deildina og það tók síðan tvö ár hjá Andra og liðinu að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni sem var alltaf markmiðið þegar Andri tók við liðinu.

Á fréttafundinum í dag var einnig tilkynnt að Haukar munu leika heimaleiki sýna á næsta ári á Vodafone-vellinum við Hlíðarenda, heimavelli Vals. Samningurinn kveður á um að Haukar spili aldrei undir færri en 10 leiki en allt að 15 leiki á heimavelli Vals næsta sumar. Samkomulagið gildir næstu þrjú árin en verður endurskoðað árlega.

Það verður einnig byggð 500 sæta stúka við gervigrasvöllinn fyrir „smærri“leikina.

Páll Guðmundsson formaður rekstrafélags Hauka staðfesti við Fótbolti.net að FH hafi hafnað beiðni Hauka um að fá að ræða við Tryggva Guðmundsson leikmann FH en í gær var einnig talað um að Gunnar Einarsson varnarmaður Leiknis og aðstoðarþjálfari þeirra hafi hafnað Haukum. Það er því nóg að gera hjá Haukum þessa dagana og næstu daga í að styrkja liðið og greinilegt að Haukar ætla sér stóra hluti á næsta ári.