Kæru Haukarar,
Krefjandi og sérstakt ár er senn að baki. Margar áskoranir hafa verið fyrir fólk á öllum aldri sem iðka knattspyrnu en eftir stendur þakklæti og stolt. Iðkendur, þjálfarar og foreldrasamfélagið hafa staðið sig frábærlega í heild sinni á erfiðum tímum þar sem heimaæfingar hafa spilað stóran þátt.
Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið fyrir 10 eða 17 ára gamlan iðkenda að halda áfram að sinna sinni íþrótt 100% þegar mótvindurinn hefur verið svo mikill. Þjálfarar knattspyrnudeildar Hauka hafa hins vegar lagt mikla vinnu í að tryggja heimaæfingar fyrir sína iðkendur og hvatt þá vel áfram sem og foreldrar enda erum við öll í þessu saman.
Við sem komum að stjórn og rekstri knattspyrnudeildar Hauka höfum þurft að takast á við margar erfiðar áskoranir og ákvarðanir á árinu. COVID-19 hefur haft mjög neikvæð áhrif á tekjur deildarinnar á árinu og þar ræður helst samdráttur framlaga samstarfs- og styrktaraðila en einnig tekjur af leikjum þegar áhorfendabann var í gangi.
Það er engu að síður spennandi kattspyrnuár framundan og bjartir tímar í kanttspyrnudeild Hauka. Við sjáum fram á að æfingar haldi áfram með eðlilegum hætti strax eftir stutt jólafrí. Við erum með vel menntaða og ástríðufulla þjálfara í knattspyrnudeild Hauka sem vinna eftir nýrri námskrá sem kynnt verður fljótlega fyrir foreldrum og iðkendum. Faglegt starf knattspyrnudeildar hefur verið eflt til muna, sem nýtist öllum iðkendum. Við erum með yfir 100 iðkendur í afreksskóla og afrekslínu knattspyrnudeildar. Við erum með spennandi meistaraflokka sem ætla sér enn lengra á næsta keppnistímabili. Ársþing KSÍ verður haldið á Ásvöllum þann 27. febrúar nk. Við sjáum fram á að framkvæmdir við knatthús hefjist fyrri hluta ársins. Við, í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ, erum að undirbúa nýtt grasæfingasvæði sunnan megin við gervigrasið. Við erum með öflugan hóp af sjálfboðaliðum en bjóðum að sjálfsögðu fleirum að taka þátt og hjálpa okkur að gera knattspyrnudeild Hauka enn betri til framtíðar.
Ég þakka iðkendum, foreldrum, þjálfurum, starfsfólki á Ásvöllum, stuðningsmönnum, sjálfboðaliðum og stjórnarfólki í knattspyrnudeild Hauka innilega fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Krefjandi og sérstakt ár senn að baki sem ég hef trú á að geri okkur enn sterkari og betri fyrir komandi misseri.
Þá vil ég óska Söru Björk Gunnarsdóttur innilega til hamingju með að hafa verið valin íþróttamaður ársins 2020, fyrsta konan til að fá útnefninguna í tvígang, og íslenska kvennalandsliðinu með að hafa tryggt sér sæti á EM en auk Söru spilar Alexandra Jóhannsdóttir, sem einnig er uppalin í Haukum, stórt hlutverk í liðinu.
Gleðilegt nýtt ár.
Halldór Jón Garðarsson
Formaður knattspyrnudeildar Hauka