Á blaðamannafundi fyrr í dag var tilkynnt um ráðningu Arons Kristjánssonar en hann tekur við þjálfun meistaraflokks karla í handknattleik af Gunnari Berg Viktorssyni en Gunnar hefur jafnframt verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari með Aroni. Samningur Arons við Hauka er til 3ja ára.
Aron lék lengi handknattleik með Haukum við góðan orðstír. Hann flutti til Danmerkur 1998 til að spila með danska liðinu Skjern og var hjá þeim í þrjú tímabil. Árið 2001 flutti Aron aftur til Íslands og lék með Haukum í tvö tímabil eða til vors 2003 þegar hann flutti aftur út til Danmerkur til að taka við þjálfun hjá Skjern. Aron var við stjórnvölinn hjá Skjern í fjögur tímabil eða til ársins 2007 þegar hann flutti til Íslands og tók þá við þjálfun á liði Hauka. Aron var með lið Hauka í þrjú tímabil og á þeim tíma voru Haukar afar sigursælir og tímabilið 2009 – 2010 unnu þeir alla titla sem í boði voru í íslenskum handknattleik. Á síðasta tímabili fór Aron til Þýskalands og tók við liði Hannover Burgdorf en hefur nú ákveðið að snúa aftur til Hauka.
Það er engum blöðum um það að fletta að Haukar binda miklar vonir við endurkomu Arons. Liðið átti erfitt uppdráttar á síðasta tímabili og endaði í 5. sæti deildarinnar og komst ekki í úrslitakeppnina sem hafði ekki áður gerst hjá Haukum síðan úrslitakeppnin var tekin upp hjá HSÍ og fram að síðasta vori voru Haukar eina liðið sem alltaf hafði verið með í úrslitakeppninni. Þeir ungu og efnilegu leikmenn, sem að hluta til báru uppi lið Hauka á síðasta tímabili, eru allir reynslunni ríkari og vonandi munu þeir þroskast og verða betri leikmenn undir stjórn Arons.
Eins og staðan er núna er ljóst að Haukar missa tvo leikmenn úr hópnum sem var í fyrra og báðir örvhentir, Einar Örn Jónsson hefur lagt skóna á hilluna og Guðmundur Árni Ólafsson er genginn til liðs við danska liðið Silkiborg. Í staðinn hafa Haukar skrifað undir samning við ungan og efnilegan örvhentan hornamann frá Selfossi, Árna Stein Steinþórsson, en að auki er Matthías Árni Ingimarsson, línumaður og varnartröll, genginn aftur til liðs við Hauka frá Gróttu en Matthías er uppalinn Haukamaður.
Aron Kristjánsson hefur sýnt það að hann er góður og metnaðarfullur þjálfari og Haukar bjóða hann velkominn til starfa á ný.