Meistaraflokkur Karla í knattspyrnu hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir komandi átök í Inkasso-deildinni næsta sumar. En þeir Ásgeir Þór Ingólfsson og Gunnar Geir Baldursson hafa skrifað undir samninga við félagið. Ásgeir Þór er öllum Haukamönnum kunnugur enda er hann uppalinn á Ásvöllum en hann steig sín fyrstu skref með meistarflokki karla hjá Haukum 17 ára gamall árið 2007. Hann lék með liðinu fram til ársins 2011 en samdi þá við Val. En kom aftur til Hauka árið 2012 og var hjá mála hjá okkur í tvö ár. Þá lág leiðin til Grindavíkur áður en hann gekk til liðs við Höneföss í Noregi en hann er nú kominn aftur heim og er gríðarlegur liðsstyrkur. En þá skrifuðu einnig þeir Oliver Helgi Gíslason og Kristinn Pétursson undir samninga við félagið.
,,Tilfinningin er mjög skrítin að vera kominn aftur í rauða búninginn, þetta gekk þannig séð mjög hratt fyrir sig og ég er hæstánægður með að þetta hafi farið í gegn.“ sagði Ásgeir við undirskriftina en hann segir að það hafi þó verið áhugi frá öðrum liðum en að Haukar hafi á endanum orðið fyrir valinu. ,,Það var nokkur áhugi bæði að utan að halda mér og eins voru þrjú lið hérna heima sem sýndu mér áhuga. Þetta var allt mjög spennandi kostir en ég valdi að koma aftur heim í Hauka og takast á við þau verkefni sem bíða okkur hér.“
Aðspurður út í markmið sín fyrir komandi sumar var Ásgeir hlédrægur, ,,Markiðið er að koma Haukum í efri hluta deildarinnar. Haukar er einfaldlega of flott félag til að vera í botnbaráttu í 1. deildinni. Það verður bæði krefjandi en að sama skapi spennandi verkefni en ég mun leggja mig 110% fram bæði innan sem utanvallar, eins mun ég reyna að miðla reynslu og vera innan handar fyrir yngri leikmenn og hjálpa þeim eftir fremsta megni.“ Sagði Ásgeir en hann býr yfir mikilli reynslu sem mun án efa nýtast liðinu gríðarlega vel.
Gunnar Geir Baldursson er tvítugur miðjumaður sem kemur til Hauka frá Breiðablik. Hann samdi til fjögurra ára við Breiðablik en hann lenti í erfiðum meiðslum þegar hann sleit krossbönd fyrir einu og hálfu ári síðan. Hann var á láni hjá Augnablik í fyrra þar sem hann þótti standa sig gríðarlega vel og gerði hann tvö mörk í 14 leikjum með Augnablik í þriðju deildinni í fyrra. Hann er nú kominn á Ásvelli og eru miklar vonir bundnar við fyrir komandi tímabil.
Oliver Helgi Gíslason samdi við félagið en hann var á mála hjá Haukum í fyrra og lék sjö leiki fyrir Meistaraflokk í fyrra og þótti standa sig gríðarlega vel. Hann kemur til okkar frá KA.
,,Ég er virkilega spenntur fyrir komandi keppnistímabili, markmiðið hjá mér persónulega er að spila sem mest og hjálpa liðinu að gera töluvert betur en á næsta tímabili, einnig ætla ég að leggja áherslu á að bæta mig sem bæði knattspyrnumann og einstakling almennt“ sagði Oliver Helgi við undirskriftina í gær.
,,Við höfum verið að æfa virkilega vel síðan við byrjuðum aftur núna eftir frí og ég er sannfærður um að það muni skila sér inn í tímabilið. Mórallinn er virkilega góður innan hópsins og því engin ástæða til annars en að vera gríðarlega spenntur“ bætti Oliver við.
Kristinn Pétursson skrifaði einnig undir samning við félagið en hann er uppalinn í Haukum. Hann á að baki 6 leiki fyrir u16 ára landslið Íslands og 10 leiki fyrir u17 ára landsliðið. Kristinn getur státað sig af því að hann á bæði leiki fyrir meistaraflokk karla í knattspyrnu og handbolta hjá Haukum þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall.
Þá hefur verið stofnað varalið félagsins sem kemur til með að leika í 4. deildinni á næsta ári. Búi Vilhjálmur Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari varaliðsins, en hann mun samhliða því vera viðloðandi við meistaraflokkinn og verður í þjálfarateyminu þar ásamt, Kristjáni Ómari, Hilmari Trausta og Hólmsteini Gauta Sigurðssyni sem mun sjá alfarið um markmannsþjálfun hjá félaginu.
Átta leikmenn sömdu við Hauka og munu koma til með að vera lánaðir í varaliðið en það eru þeir, Álfgrímur Gunnar Guðmundsson, Egill Atlason, Fannar Óli Friðleifsson, Jón Helgi Pálmason, Karl Viðar Pétursson, Sigmundur Einar Jónsson, Sindri Hrafn Jónsson og Stefnir Stefánsson. En þeir hafa allir verið viðloðandi við meistaraflokk karla síðastliðin ár og munu koma til með að mynda kjarna leikmanna nýstofnaðs varaliðs félagsins í sumar.