Það er orðið ljóst að Ásgeir Örn Hallgrímsson og Vignir Svavarsson hafa leikið sína síðustu leiki á handboltavellinum, en þeir félagar hafa tilkynnt að þeir munu leggja skóna á hilluna frægu í sumar.
Ásgeir og Vignir hafa leikið með Haukum allan sinn feril hér á landi og verið fyrirliðar liðsins, voru báðir margfaldir Íslands-, bikar- og deildarmeistarar áður en þeir héldu í atvinnumennsku sumarið 2005. Báðir áttu þeir farsælan feril erlendis með félagsliðum í Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi, þar sem bikarar og medalíur bættust í safnið. Auk þess hafa þeir leikið yfir 250 landsleiki fyrir Íslands hönd.
Ásgeir snéri heim á Ásvelli 2018 og Vignir ári síðar. Hafa þeir verið lykilmenn og í leiðtogahlutverkum innan sem utan vallar undafarin tímabil.
Vignir segir það algjör forréttindi að hafa fengið tækifæri á að klára ferilinn þar sem hann byrjað og að fá að spila aftur með og fyrir það frábæra fólk sem er í Haukunum.
“Þó svo að þetta hafi ekki verið endirinn sem ég ætlaði mér, þetta átti að enda með titli þá geng ég sáttur og ánægður frá borði” bættir Vignir við.
Ásgeir tekur í sama streng
“Ef að komið er að leiðarlokum,
Ef að leiðir okkar skilja hér.
Þó svo allt hafi ekki gengið að óskum,
áttu alltaf stað í hjarta mér.
orti stórskáldið og það á vel við núna.
Endirinn átti að vera aðeins öðruvísi, en maður ræður ekki alltaf örlögum sínum sjálfur. Ég er gríðarlega glaður að hafa fengið að klára ferilinn í lang besta félaginu á Íslandi, félaginu þar sem þetta byrjaði allt saman. Ég á Haukum gríðarlega mikið að þakka og næ sennilega aldrei að endurgjalda þeim þau tækifæri sem félagið hefur fært mér.”
Stefnt er á að spilaður verði kveðjuleikur í september og verður sá leikur auglýstur þegar nær dregur.
Handknattleiksdeild Hauka vill þakka Ásgeiri og Vigni fyrir þeirra framlag til handboltans í Haukunum.