Atli Sveinn Þórarinsson hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Hauka um að taka við þjálfun meistaraflokks karla. Samningurinn gildir til tveggja ára. Tekur hann við liðinu af Igor Bjarna Kostic.
Atli þjálfaði síðast meistaraflokk karla hjá Fylki en hann þjálfaði áður Dalvík/Reyni í 3. deildinni, 2. flokk karla hjá KA og var yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni.
Atli lék 308 deildarleiki á Íslandi og í Svíþjóð en hann á að baki farsælan feril með KA, Örgryte og Val þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2007.
Atli segist vera mjög spenntur fyrir verkefninu. ,,Haukar hafa allt sem til þarf til að vera gott Lengjudeildarlið og við setjum stefnuna beint upp. Með tíð og tíma er svo hægt að horfa eitthvað hærra en það en við byrjum á að koma okkur upp úr þessari deild.“
Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, fagnar komu Atla á Ásvelli. ,,Við bindum miklar vonir við Atla og höfum trú á að hann sé rétti maðurinn í að stýra liðinu aftur upp í Lengjudeildina. Að sama skapi ætlum við að styrkja hópinn enn frekar. Þá vil ég nota tækifærið og þakka Igor fyrir vel unnin störf fyrir knattspyrnudeild Hauka þar sem hann leiddi m.a. innleiðingu á nýrri námsskrá, hafði umsjón með afreksskóla deildinnar og stuðlaði að faglegra starfi knattspyrnudeildar í samstarfi við aðra þjálfara – það er vinna sem mun nýtast áfram.“
Áfram Haukar!