Haukar eru komnir áfram í 16 liða úrslit Powerade bikarsins eftir góðan sigur á FSu í gær. Haukar sem léku án Aaryon Williams áttu ekki í vandræðum með heimamenn á Selfossi og unnu með 25 stigum, 80-105.
FSu leiddi eftir fyrsta leikhluta 24-19 en í öðrum leikhluta tóku Haukar völdin. Helgi Björn Einarsson kom aftur inn í lið Hauka en hann hefur verið frá vegna meiðsla og veikinda og ánægjulegt er fyrir Haukaliðið að fá hann aftur inn.
Haukur Óskarsson var drjúgur fyrir Hauka og endaði með 28 stig og 5 fráköst. Haukur var sjóðandi fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður 6 af 10 þriggja stiga skotum sínum. Davíð Páll Hermannsson var með 25 stig og Emil Barja gerði 17 stig og gaf 6 stoðsendingar.
Þá unnu Haukar B góðan sigur á liði Víkings frá Ólafsvík á laugardaginn og eru einnig komnir áfram í 16 liða úrslit.
Víkingar byrjuðu leikinn betur og náðu mest fimm stiga forystu í fyrsta leikhluta en það varði ekki lengi. Haukar náðu góðum spretti og leiddu eftir fyrsta leikhluta með átta stigum og voru 12 stigum yfir í hálfleik. Í upphafi þriðja leikhluta náðu Haukar að gera út um leikinn þegar þeir skoruðu 15 stig í röð og keyrðu muninn upp í 28 stig. Eftirleikurinn var auðveldur og öruggur 21 stigs sigur, 76-55, staðreynd.
Marel Örn Guðlaugsson var stigahæstur Hauka með 21 stig og Sveinn Ómar Sveinsson var með 16 stig og 16 fráköst.
Þess má geta að byrjunarlið Hauka skoraði 44 stig en bekkurinn 32 og sýnir það best hversu mikla breidd liðið hefur.