Fyrsti sigur Hauka í IE-deild Hauka lætur standa á sér en liðið er með 0 stig eftir fjóra leiki. Í kvöld mættu þeir Keflavík í Toyotahöllinni í Keflavík og þrátt fyrir mikla baráttu þá þurfti liðið að þola níu stiga tap, 85-76.
Keflvíkingar byrjuðu betur í leiknum en Haukar gættu þess að missa þá ekki langt fram úr sér og var fyrri hálfleikur mjög jafn. Jafnt var eftir fyrsta leikhluta 20-20 og voru þeir þremur undir í hálfleik 42-39.
Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn á að skora níu stig í röð og náðu muninum upp í 12 stig. Haukar gerðu allt sem þeir gátu til að minnka muninn og gera þetta af alvöru leik og minnkuðu muninn í sex stig þegar að rétt um helmingur var eftir af loka leikhlutanum. Keflavík náði þá að keyra muninn aftur upp og fór sem fór.
Jovonni Shuler var stigahæstur Haukamanna með 18 stig og 16 fráköst og nýjasta viðbót liðsins, Chris Smith, var með 17 stig og 8 fráköst.
Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn þegar að KFÍ kemur og heimsækir Ásvelli í Lengjubikarnum en eini sigur liðsins hefur náðst í þeirri keppni þegar liðið sigraði Fjölni á mánudaginn.