Bikar upphitun: Helena í léttu spjalli

Nú styttist í bikarúrslitaleik Hauka og Keflavíkur og í tilefni af því þá ætlum við að hita létt upp hérna á síðunni. Við höfðum samband við fjóra fyrrum leikmenn Hauka sem allir hafa orðið bikarmeistarar með félaginu en bikartitlar Hauka eru fjórir. Sá fyrsti kom 1984 næsti 1992, þriðji 2005 og sá síðasti 2007. Haukar spiluðu einnig til úrslita 2008 en náðu ekki að grípa titilinn það árið.

Þessir leikmenn sem við heyrðum í eru Sólveig Pálsdóttir sem varð bikarmeistari 1984, Guðbjörg Norðfjörð 1992, Helena Sverrisdóttir 2005 og Pálína Gunnlaugsdóttir 2007. Við köstuðum léttum bikartengdum spurningum á hverja og eina og byrjum á því að lesa hvernig Helena Sverrisdóttir upplifði sinn fyrsta stóra titil með Haukaliðinu.

Hvernig upplifun var það að verða bikarmeistari. Var hún eins og þú bjóst við?

Eins og flestir sem þekkja mig þá er minnið mitt ekki alveg það besta. En ég man samt eftir fyrsta bikarmeistaratitlinum 2006 frekar vel. Það var alltaf rosalega gaman að fara í Höllina og mikil spenna í kringum þá leiki. Þegar við unnum þá var þetta fyrsti stóri titillinn okkar, og þetta var mun betra en hægt var að ímynda sér! Æðisleg tilfinning

Segðu okkur frá því helsta sem þú manst frá úrslitaleiknum 2005.

Ég man eftir síðustu vörninni. Ég var að dekka kanann hjá Grindavík og þær áttu innkast, ég gleymdi mér algjörlega og hún fékk boltann galopinn í þriggjastigaskot. Sem betur fer klikkaði hún og við unnum! Ég man eftir að fagna með öllum stelpunum, enda vorum við búnar að leggja gríðarlega vinnu í þetta

Hvernig leið þér fyrir leik?

Ég er svo „heppin“ að ég verð aldrei stressuð fyrir körfuboltaleiki, sama hversu stórir þeir eru. Ég fyllist tilhlökkunar og get varla beðið eftir að byrja að spila. Finnst t.d. fátt erfiðara en að hita upp fyrir stórleiki því ég vil bara helst byrja þetta sem fyrst.

Hvernig heldurðu að Haukar-Keflavík fari?

Það er mjög erfitt að segja. Ég reyni að fylgjast svoldið með deildinni og það lýtur allt út fyrir að Keflavík sé á mikilli siglingu og ég skil það vel, enda að hafa Pálínu Gunnlaugsdóttir í einhverju liði er eins og að hafa vítamíns-sprautu fyrir alla. Ég myndi segja að það sé ástæðan fyfir því að Keflavík séu að koma svona sterkar inn núna. Heather Ezell er samt ekkert grín og hreint ótrúlegar tölur sem hún er að setja upp. Ef hún á topp leik og Haukarnir geta fengið Kiki Lund og Rögnu Margréti til að spila vel þá held ég að þær eigi séns. En málið er bara að í svona stórum leikjum þá skiptir nánast engu máli hvor er með sterkara liðið. Ef að hungrið á sigri er til staðar þá getur allt gerst!

Smá skemmtilegur fróðleikur frá Helenu:
Kiki Lund spilaði með Ida Preetzman liðsfélaga mínum hér í TCU, og Heather Ezell spilaði alltaf gegn TK Lafleur herbergis-og liðsfélaga þegar hún var hjá Nebraska og þær dekkuðu hvor aðra.