Bikar upphitun: Sólveig Pálsdóttir

Síðust en ekki síst er Sólveig Pálsdóttir sem ætlar að deila með okkur sinni upplifun að verða bikarmeistari með Haukum. Sólveig varð tvisvar sinnum bikarmeistari með félaginu 1984 og 1992 en seinna árið var hún fyrirliði liðsins. Sólveig deilir hér með okkur árinu 1984.

Hvernig upplifun var það að verða bikarmeistari?
Það var ofsalega gaman að verða bikarmeistari. Okkur tókst því miður aldrei að verða Íslandsmeistarar. Þannig að þetta var frábær upplifun. Umgjörðin í kringum leikinn skiptir líka máli. Spila í höllinni o.s.frv.

Segðu okkur frá því helsta sem þú mannst frá úrslitaleiknum 1984.
1984 var fyrsti titillinn sem ég vann í körfubolta og var ég alveg til í að vinna a.m.k. einn titil á ári eftir þessa upplifun. Mig minnir að upplifunin hafi verið betri en ég bjóst við fyrirfram, þetta var mjög gaman.
Ég man ekki mikið frá leikunum 1984 en þá var ég 19 ára. Svana Guðlaugs var fyrirliði og tók hún við bikarnum (lítil dolla) eftir leikinn. Við unnum ÍS í þessum leik og var Dolla (Kolbrún Jónsdóttir) að þjálfa okkur en hún kom frá ÍS. Mig minnir að þetta hafi verið frekar léttur leikur. Hópurinn var góður og skemmtilegur.
Við unnum svo Keflavík í úrslitaleik 1992, ég man betur eftir þeim leik. Við unnum þann leik auðveldlega en þær höfðu rústað okkur í bikarúrslitaleik ári eða tveimur árum áður. Við vorum með frábæran þjálfara, þann besta sem ég hef haft, Ingvar Jónsson. Ég var fyrirliði, þannig að ég fékk að taka á móti bikarnum sem hafði stækkað aðeins frá 1984. Í þessum leik gekk allt upp hjá okkur en ekkert hjá Keflavík. Þær voru jafn svekktar og við vorum kampakátar.
Upplifunin af þessum sigri var bara frábær. Mér fannst alltaf gaman að vinna Keflavík, þær voru svo erfiðir andstæðingar. Ég held að flestir hafi búist við Keflavíkursigri, allavega var fyrsta spurning íþróttafréttaritara sjónvarpsins „Hvað heldur þú að hafi gerst hjá Keflavík“ Mér var alveg sama því það var ekkert að okkar leik. Í þessu liði voru líka frábærar stelpur, mórallinn var meiri háttar.
Það er frábært að vinna titil og það er erfitt að lýsa þeirri upplifun, hún er ólýsanleg.

Hvernig heldurðu að Haukar-Keflavík fari?

Ég held og vona að HAUKA stelpur vinni Keflavík í bikarnum og sendi ég þeim baráttukveðjur. Haukar eiga alltaf bút af mínu hjarta.

Áfram HAUKAR

kveðja
Sólveig Pálsdóttir

Sjá einnig:
Bikarupphitun – Pálína Gunnlaugsdóttir 2007
Bikarupphitun – Helena Sverrisdóttir 2005
Bikarupphitun – Guðbjörg Norðfjörð 1992